Kristrún Guðnadóttir, úr Skíðagöngufélaginu Ulli, átti frábæra Vasagöngu í gær og endaði í 40. sæti í kvennaflokk af um 16 þúsund keppendum í það heila. Tími Kristrúna var 4:45:10 sem gefur meðalhraða upp á 17,9 km/klst, athugið að gangan er 90 km löng! Þetta er langbesti tími sem íslensk skíðakona hefur náð í Vasagöngunni.
Kristrún hefur verið að stimpla sig inn í lengri skíðagöngukeppnum á borð við Vasagönguna (90 km) og Marcialonga (70 km). Fyrr í vetur náði hún einmitt 33. sæti í Marcialonga.
Það verður gaman að fylgjast áfram með Kristrúnu í vetur og ljóst að hún er í hörku formi!