Námskeið verða fyrir byrjendur og þá sem vilja ná aðeins betri tökum á hinni bráðskemmtilegu íþrótt skíðagöngunni.
Við höldum námskeið nokkrum sinnum á vetri. Síðan eru námskeið haldin fyrir hópa, fimm manns eða fleiri, eftir pöntunum. Til að panta sendið þá töluvpóst á ullarpostur@gmail.com
Námskeiðin eru mjög háð því að snjór sé nægur og veður skaplegt en hvorugt er sjálfgefið í Bláfjöllum um hávetur. Fylgist því vel með tilkynningum hér á vefnum og á Facebook síðu félagsins.
Skíðagöngufélagið Ullur hefur alltaf lagt mikla áherslu á að kynna skíðagöngu fyrir þeim sem ekki hafa enn uppgötvað þessa frábæru íþrótt og aðstoða félagsmenn við að bæta árangur sinn. Námskeiðahald, bæði fyrir byrjendur og lengra komna, er því mikilvægur þáttur í starfsemi félagsins. Lögð er áhersla á að standa vel að námskeiðunum og ef marka má viðbrögð þátttakenda hefur það tekist nokkuð vel.
Miðað hefur verið við að hámarksfjöldi á byrjendanámskeiði sé 40 en ekki má treysta því að fleiri en 15 geti fengið leigðan skíðabúnað samtímis. Þátttakendum er skipt í nokkra hópa sem hefur hver sinn leiðbeinanda. Miðað er við að lágmarksfjöldi til þess að námskeið sé haldið sé fimm þátttakendur. Hópar, fimm manns eða fleiri (fjölskyldur, félög, vinnustaðir o.s.frv.), geta beðið um námskeið sérsniðin fyrir sig. Þeir, sem ekki eiga sín eigin gönguskíði geta fengið leigðan allan búnað á góðum kjörum hjá félaginu.
Það er ekki auðvelt að tímasetja námskeið fyrir fram því bæði skíðafæri og veður þarf að vera í þokkalega góðu lagi og því miður er ekki alltaf hægt að ganga að slíku vísu í Bláfjöllum. Það er því varla annað fært en að ákveða námskeið með fremur skömmum fyrirvara þegar vel lítur út með aðstæður og nógu margir leiðbeinendur eru tiltækir. Þetta sannaðist áþreifanlega í janúar 2013 þegar fjögur námskeið voru skipulögð tvær helgar í röð og meira en 200 höfðu skráð sig á námskeiðin. Fyrri helgina gekk allt vel en þá síðari þurfti að fresta öllum námskeiðum um viku vegna veðurs. Sagan endurtók sig svo helgina eftir.
Stök byrjendanámskeið eru öllum opin, jafnt félagsmönnum í Ulli sem öðrum.
Félagsaðild í Ulli er aftur á móti skilyrt fyrir lengri námskeið, t.d. 5 skipta námskeið eða MasterClass helgi.
Þar sem fjöldi sem hægt er að sinna á hverju námskeiði er takmarkaður er nauðsynlegt að skrá sig á námskeiðin fyrir fram. Það er gert hér á vefnum þegar námskeið hafa verið tímasett.