Eitt af markmiðum núverandi stjórnar er að efla félagsmenn og aðra velunnara til að móta starfsemi félagsins til framtíðar.
Félagið stendur á tímamótum með bættri aðstöðu félagsins í Bláfjöllum, mikilli sókn skíðagöngunnar á Höfuðborgarsvæðinu og ekki síst að félagið hefur innan sinna raða öflugt afreksfólk í skíðagöngu, sem sumt hefur vaxið upp úr öflugu barna- og unglingastarfi félagsins undanfarin ár, sem við viljum hlúa að til framtíðar.
Eins og kynnt var á kynningarfundi félagsins þann 11. des sl. þá boðum við til opins félagsfundar og bjóðum félögum, áhugafólki og helstu hagaðilum að taka þátt í að móta starfið til næstu ára.
Ræða allt það sem eflir félagið og starfsemi þess til framtíðar, samstarf við styrktar- og hagaðila, setja skýr markmið og í framhaldinu umgjörð og skipulag til að hrinda helstu stefnumálum í framkvæmd.
Fundurinn verður haldinn þann 6. janúar, í skála Breiðabliks í Bláfjöllum frá kl. 9:00 til 13:00, ef veður og færð leyfir, þannig að ferðin nýtist líka til skíðaiðkunar. Morgunhressing í boði.
Formið á fundinum verður þannig að í fyrri hluta fundarins, þá við skiptum fundargestum í umræðuhópa um ákveðin málefni, sem skila af sér niðurstöðum og tillögum sem kynntar verða og forgangsraðað í seinni hluta fundarins. Stjórn mun síðan fylgja eftir og útfæra tillögurnar nánar og eftir atvikum leggja fyrir aðalfund félagsins eins og þurfa þykir.
Facebook viðburður fyrir fundinn er hér
Hlökkum til að sjá sem flesta!