Bikarkeppni SKÍ – Góður árangur á Ólafsfirði

Um helgina fór fram Bikarmót SKÍ á Ólafsfirði, það þriðja í röðinni á þessum vetri. Skíðagöngufélagið Ullur sendi 7 keppendur á aldrinum 13 – 17 ára ásamt fylgdarliði, foreldrum og aðstoðarmönnum.

Keppni hófst í lok dags á föstudeginum þegar keppt var með frjálsri aðferð. Aðstæður voru frábærar, stillt, fallegt vetrarveður og allar aðstæður til fyrirmyndar. Ullungar náðum góðum árangir á fyrsta keppnisdegi. Í 13-14 ára aldursflokki náði Matthía Karl Ólafsson 2. sæti í drengjaflokki og Áslaug Yngvadóttir í 7. sæti í stúlknaflokki. Þau gengur 3,5 km. Þá varð Elísa Mar Friðriksson í 4 . sæti í flokki 15-16 ára drengja í 5 km göngu. Í sama aldursflokki stúlkna náði Vala Kristín Georgsdóttir 3. sæti og Sunna Kristín Jónsdóttir 5. sæti. Þá sigraði María Kristín Ólafsdóttir 10 km göngu í flokki 17 ára og eldir en Hjalti Böðvarsson kláraði ekki sína göngu í sama aldursflokki.

Á laugardeginum var keppt með hefðbundinni aðferð og ræst í öllum flokkum með hópstarti. Vegalengdir voru lengri á laugardeginum og gengu 13-14 ára krakkar 5 km, 15-16 ára 7,5 km og 17 ára og eldri gengu 15 km. Aðstæður voru allar hinar bestu á laugardeginum, sól, logn og gott skíðafæri. Í flokki 13-14 ára stúlkna endaði Áslaug Yngvadóttir í 7. sæti og Matthías Karl í 3. sæti í flokki drengja. Vala Kristín Georgsdóttir hafnaði í 2. sæti og Sunna Kristín Jónsdóttir í 5. sæti í flokki 15-16 ára stúlkna en Elías Mar Friðriksson endaði jafn fram í 2. sæti í 15-16 ára flokki drengja. Keppni í flokki 17 ára og eldri karla var spennandi og átti Hjalti Böðvarsson frábæra göngu þegar hann náði 3. sæti í sterkum flokki karla. Þess má geta að Hjalti er á yngsta ári í þessum flokk og í því ljósi er árangurinn frábær enda keppinautarnir í 1. og 2. sæti þremur og fjórum árum eldri. María Kristín Ólafdóttir sigraði með nokkrum yfirburðum í flokki 17 ára og eldri kvenna.

Keppni í sprettgöngu með hefðbundinni aðferð fór fram á sunnudeginum. Aðstæður voru nokkuð breyttar frá því sem var dagana áður enda hafði rignt um nóttina og fryst í kjölfarið. Brautirnar voru því mjög harðar og hraðar. Þetta olli aðstoðarmönnum áhyggjum enda þurfti að endurskoða allt í sambandi við skíðin, festuáburð (klístur) og rennsli! Áslaug Yngvadóttir hafnaði í 8. sæti í flokki 13-14 ára stúlkna og Matthías Karl Ólafsson endaði í 3. sæti í sama flokki drengja. Þá endaði Elías Mar Friðriksson í 4. sæti í flokki 15-16 ára drengja og komst ekki í úrslita riðilinn. Vala Kristín Georgsdóttir komst í úrslit í flokki 15-16 ára stúlkna og endaði í 3. sæti en Sunna Kristín Jónsdóttir náði ekki inn í úrslit og endaði í 5. sæti. Í 17 ára og eldri flokkunum komust bæði María Kristín og Hjalti í úrslit þar sem Hjalti hafnaði í 4. sæti en María Kristín sigraði þrátt fyrir að hafa dottið snemma í keppninni.

Öll úrslit má nálgast inn á timatak.net. Stöðuna í bikarkeppni SKÍ má svo sjá hér þegar hún hefur verið uppfærð. Myndir og fleira má svo sjá á heimasíðu Skíðafélags Ólafsfjarðar, skiol.is og Facebook síðunni þeirra.

Skíðagöngufélagið Ullur þakkar Ólafsfirðingum fyrir frábært mót!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur