Ný námskeið að hefjast, eitthvað fyrir alla!

Nú fara að hefjast ný námskeið hjá Skíðagöngufélaginu Ulli og það má finna eitthvað fyrir alla!

Félagið stendur enn á ný fyrir þriggja vikna æfingalotum fyrir félagsmenn frá 9. mars 2017 en æfingarnar eru annars vegar ætlaðar nýjum félagsmönnum, lítt vönu skíðagöngu, til dæmis hlaupurum sem stefna á að verða Landvættir, og hins vegar þeim sem eru vanir á gönguskíðum.

Þá fer einnig af stað tveggja vikna námskeið í skíðaskauti en allir þeir sem hafa verið áður á námskeiðum hjá Ulli geta skráð sig í þennan hóp.

Að lokum viljum við minna á samæfingahópinn okkar sem hittist einu sinni í viku, á miðvikudögum kl. 18:00, en hann er fyrir þá sem vilja æfa reglulega í skemmtilegum hópi lengra kominna og/eða ætla sér að keppa t.d. í Fossavatnsgöngunni.

Hér fyrir neðan má sjá nánari upplýsingar um hópana:

Æfingalota:  Ullur stendur enn á ný fyrir þriggja vikna æfingalotum fyrir félagsmenn frá 9. mars 2017. Æfingarnar eru annars vegar ætlaðar nýjum félagsmönnum, lítt vönu skíðagöngu, til dæmis hlaupurum sem stefna á að verða Landvættir, og hins vegar þeim sem eru vanir á gönguskíðum.

Farið verður í alla helstu þætti skíðagöngunnar eins og skíðatækni, klæðnað, smurningu og fleira. Þjálfari er Einar Ólafsson, auk annarra sem hafa mikla reynslu af skíðagöngu og kennslu. Mögulega er hægt að færa fólk á milli hópa eftir getu og aðstæðum þegar líður á æfingatímabilið.

Æft tvisvar í viku, sex skipti samtals. Æfing/kennsla verður á fimmtudögum kl. 18:00 og laugardögum kl. 10:30. Fyrsta kennsla verður fimmtudaginn 9. mars kl. 18:00 í Bláfjöllum. Hluti af námskeiðinu verður smurningskennsla og verður hún haldin þegar/ef veður verður vont einhvern daginn. Fylgist með á Facebook síðu Ullar varðandi breytingar vegna veðurs. Athugið að laugardaginn 18. mars verður Bláfjallagangan, svo æfinguna þann dag þarf að færa til.

Þeir sem eru með smurningsskíði (ekki riffluð) þurfa að vera búnir að undirbúa skíðin sín fyrir settan tíma æfingarinnar hverju sinni. Einungis er hægt að fá leigð skíði ef æfingin fer fram í Bláfjöllum.

Verð fyrir æfingalotu, 6 skipti: 12.000.-

Skautaskíði:  Kennt tvisvar í viku, fjögur skipti samtals. Allir þeir sem hafa verið áður á námskeiðum hjá Ulli geta skráð sig í þennan hóp. Æfing/kennsla fyrir Skautahóp verða á fimmtudögum kl. 19:30 og laugardögum kl. 12:00. Fyrsta kennsla verður fimmtudaginn 9. mars kl. 19:30. Fylgist með á Facebook síðu Ullar varðandi breytingar vegna veðurs. Athugið að ekki er hægt að fá leigð skautaskíði. Laugardaginn 18. mars verður Bláfjallagangan, svo æfinguna þann dag þarf að færa til.

Verð fyrir skautaskíði, 4 skipti: 8.000.-

Samæfingar:  Ullur stendur fyrir sameiginlegum æfingum, einu sinni í viku, á miðvikudögum kl. 18:00 fyrir þá sem vilja æfa reglulega í skemmtilegum hópi lengra kominna og/eða ætla sér að keppa t.d. í Fossavatnsgöngunni. Ekki verður um hefðbundna kennslu á tækni að ræða, en Einar Ólafsson mun stjórna þessum æfingum auk annarra sem hafa mikla reynslu af skíðagöngu og kennslu. Fylgist með á Facebook síðu Ullar varðandi breytingar vegna veðurs.
Verð fyrir reglulegar samæfingar: 8.000.-

Skráning og greiðslur:

Nauðsynlegt er að fólk skrái sig á námskeiðin og má gera það með því að smella á viðkomandi mynd efst í dálkinum hér til hægri og fylla út eyðublað sem þá birtist. Skráningar taka gildi þegar greiðsla skráningargjalds hefur farið fram.

Greiðsluupplýsingar:

Skíðagöngufélagið Ullur
Kennitala: 600707-0780
Reikningsnúmer: 0117-26-6770
Skýring æfingalota: AEF9MAR
Skýring skautaskíði: SKA9MAR
Skýring samæfingar: SAM8MAR
Kvittun sendist til: ullarpostur@gmail.com

Vinsamlega greiðið aðeins eitt gjald í hverri færslu þannig að hægt sé að sjá fyrir hvaða þátttakanda er verið að greiða eða sendið póst á ullarpostur@gmail.com þar sem kemur fram hver borgar fyrir hvern.

Mikilvægar upplýsingar:

Námskeiðin/æfingar fara fram við skála Ullar í Bláfjöllum og í Heiðmörk. Fer það eftir veðri og aðstæðum hverju sinni.  Á heimasíðu Ullar má sjá hvernig hægt er að finna skálann, finnið „Um félagið“ – „Skálinn“ eða smellið hér.

Fyrir miðvikudags- og fimmtudagskennsluna er gott að vera með höfuðljós. Í Heiðmörk verða allir að vera með ljós. Þegar tvísýnt verður um veður í Bláfjöllum munum við auglýsa hvort af æfingu verður og/eða hvort við flytjum hana í Heiðmörkina eða á golfvöllinn í Garðabænum eða á golfvöllinn hjá Oddi.

Vakin er athygli á því að eins og á öðrum skíðasvæðum þarf að kaupa skíðakort sem gildir í brautirnar í Bláfjöllum en það er ekki innifalið í námskeiðum sem haldin eru á svæðinu. Smelltu hér til að skoða gjaldskrá skíðasvæðisins í Bláfjöllum, en dagskort kostar 950 kr. Hægt er að greiða fyrir dagskort með korti í skála Ullar.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur