Meira um Ullunga í Fossavatnsgöngu

Það fer ekkert milli mála að Fossavatnsgangan er stærsta og glæsilegasta skíðagöngukeppni á Íslandi. Að þessu sinni voru 344 skráðir til leiks, sem mun vera met, og þrátt fyrir afspyrnuslæmt veður skiluðu 300 sér í mark en sú tala fæst með því að leggja saman tölur á úrslitalistunum.

Eftir því sem næst verður komist luku 36 Ullungar göngunni að þessu sinni. Það er að vísu ekki hægt að fullyrða að sú tala sé nákvæmlega rétt því það er allur gangur á því hvernig fólk skráir sig til þátttöku í skíðagöngum. Sumir sleppa því að skrá nokkurt félag en aðrir skrá félag sem þeir vilja keppa fyrir þótt þeir séu kannski ekki á félagskránni. Það má því deila um þessa tölu ef menn vilja en hún hlýtur þó að teljast nærri lagi.

Stystu brautina, 2,5 km, gengu 63 og þar voru heimamenn í yfirgnæfandi meirihluta eins og við var að búast, enginn keppandi var merktur Ulli. 10 km gengu 39, þar af 5 Ullungar. Fyrstur þeirra í mark var formaðurinn sjálfur, Þóroddur F. Þóroddsson (49:16), en fyrst Ullarkvenna Harpa Sigríður Óskarsdóttir (57:36). Fjölmennust var 15 km gangan. Þar komu 108 í mark og þar af voru 19 Ullungar, fljótust þeirra voru Björn Z. Ásgrímsson (1:04:52) og Hrefna Katrín Guðmundsdóttir (1:05:35). Af þeim 90 sem komu í mark eftir 45 km göngu voru 12 Ullungar, fljótastur þeirra var Ólafur Ragnar Helgason (2:57:34) en fljótust Ullarkvenna var Anna Sigríður Vernharðsdóttir (4:12:53).

Vefnum hafa ekki borist neinar myndir úr Fossavatnsgöngunni og því verður látið nægja að vísa í ágætar myndir Benedikts Hermannssonar:  http://sportmyndir.com/photoalbums/246727/  Þarna er að finna 494 myndir frá göngunni en úrslitalistar Fossavatnsgöngunnar hafa því miður þann galla að þar kemur ekki fram rásnúmer keppenda. Það er því ekki hlaupið að því að finna myndir af tilteknum keppendum.

Með Fossavatnsgöngunni lauk Íslandsgöngunni 2013. Úrslit hennar eru komin hér á vefinn og eins og þar má sjá áttu Ullungar þar nokkra fulltrúa á verðlaunapöllum. Ef til vill verður rýnt nánar í þau úrslit síðar.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur