Heimsmeistaramótið í skíðagöngu hófst í gær með pompi og prakt. Fyrstu grein mótsins er lokið en í dag fór fram undankeppni fyrir skíðfólk sem hefur ekki náð undir tilskilin fjölda FIS-punkta, eða undir 175 punkta. Þeir Einar Árni Gíslason (SKA) og Ástmar helgi Kristinsson (SFÍ) tóku þátt og náðu góðum árangri. Einar Árni hafnaði 14. sæti af um 80 keppendum sem er frábær árangur. Ástmar Helgi gerði enn betur og náði 6. sæti, hreint frábær árangur sem tryggir Ástmari Helga þátttökurétt í 10 km göngu með hefðbundinni aðferð. Til að komast áfram upp úr undankeppninni þarf að vera í einu af tíu efstu sætunum. Einar Árni var einungis 4 sekúndum frá því að ná á topp 10! Úrslit frá keppni dagsins má sjá hér. Skíðagöngufélagið Ullur óskar þeim til hamingju með flottan árangur.
Íslendingar eiga óvenju marga keppendur að þessu sinni, samtal fimm og þar af er tvö úr Ulli! Það eru þau Kristrún Guðnadóttir og Fróði Hymer, bæði hefja keppni í dag þegar undankeppni í sprettgöngu með frjálsri aðferð fer fram.
Fróði hefur átt góðu gengi að fagna það sem af er vetri og átt nokkrar góðar göngur. Hann náði frábærum árangir á heimsmeistarmóti unglinga á Ítalíu fyrr í vetur auk þess að hafa náð fínum árangri á norsku bikarmótaöðinni. Þess ber að geta að Fróði keppir enn í unglingaflokki og því er skrefið nokkuð stórt upp á stóra sviðið.
Kristrún hefur verið að klást við þrálát meiðsli frá því í haust og ekki getað æft eins og venjulega. Undirbúningurinn er því ekki eins og hún hefði kosið en tekur engu að síður þátt í einn grein á mótinu, sprettgöngu með frjálsri aðferð.
Það er hugur í Ullungunum í Þrándheimi og eru þau að sögn „peppuð“ fyrir keppni morgundagsins. Kristrún ríður á vaðið og byrjar keppni kl. 9:19 að íslenskum tíma. Hún er með rásnúmer 77. Fróði er með rásnúmer 113 og startar kl. 10:20. Sýnt verður frá keppninni á RÚV í beinni útsendingu. Á heimsíðu FIS og í FIS-appinu er hægt að fylgjast með lifandi tímatöku, millitímum og úrslitum.
Skíðagöngufélagið Ullur óskar Kristrúnu og Fróða góðs gengis á morgun!
