Á morgun, miðvikudaginn 5. febrúar, heldur keppni áfram á Heimsmeistarmóti unglinga þar sem Ullungurinn Fróði Hymer er meðal keppenda ásamt Ástmari Helga Kristinssyni og Grétari Smára Samúelssyni úr Skíðafélagi Ísfirðinga. Keppt verður í 20 km göngu með heðfbundinni aðferð, ræst með hópstarti.
Samkvæmt heimildum náði Fróði og félagar að æfa vel í dag og eru klárir í keppnina. Aðstæðar eru allar hinar bestu og er veðurspáin upp á tíu, sól og blíða. Á milli keppna eru dagarnir rólegir hjá strákunum, það er æft, sofið og borðað. Hið fullkomna líf skíðamannsins!
Aftur á móti er nóg að gera hjá aðstoðarmönnum drengjanna, þeim Mugg og Steina. Að gera skíðin klár fyrir 20 km hefðbundna keppni er mikil kúnst og krefst mikillar vinnu og útsjónarsemi til að samspil festu og rennslis verði sem allra best. Sagan segir að Muggur hafi gengið um 15 km í dag við prófanir á fjölda mismunandi útfærslna á smurningu. Reikna má með að annað eins verði gengið snemma í fyrramálið þegar frekari prófanir hefjast. Allt til að strákarnir hafi sem allra best skíði.
Keppni hefst kl. 11:00 hjá strákunum. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá mótinu hér og lifandi tímatöku hér. Fróði verður með rásnúmer 44 á morgun, Ástmar Helgi númer 65 og Grétar Smári númer 70.
Skíðagöngufélagið Ullur sendir baráttukveðjur til Fróða og félaga!
Vinnuaðstaða íslenska liðssins, hér gerast töfrarnir!