Heimsmeistarmót unglinga – Góð ganga hjá Fróða

Fróði Hymer á HM-unglinga

Það voru frábærar aðstæður þegar keppni í 20 km göngu með hefðbundinn aðferð fór fram í dag á HM-unglinga í Schilpario á Ítalíu. Á ráslínunni voru þrír íslenskir keppendur, Ástmar Helgi og Grétar Smári úr SFÍ og Fróði Hymer úr Skíðagöngufélaginu Ulli.

Gangan var ræst kl. 12:00 að íslenskum tíma og var sýnd í beinni útsendingu á YouTube, upptöku má sjá hér.

Fremstu menn tóku fljótt forystu ásamt stórum hópi skíðamanna, þar á meðal Fróði sem þurfti þó fljótlega að gefa eftir enda ljóst að gangan var mjög hröð. Til marks um það gekki Fróði fyrri 10 km á rétt tæpum 26 mínútum.

Lengi vel var Fróði í keppni um 29. – 30. sætið og fylgdi hóp sem var á því róli. Eftir um 14 km fór þreytan að segja til sín eins og vill oft verða þegar gengið er langt og hratt. Niðurstaðan var nokkuð öruggt 32. sæti (af 80 keppendum) á tímanum 56:11, tæpum 5 mínútum á eftir sigurvegaranum Lars Heggen frá Noregi.

Skíðagöngufélagið Ullur óskar Fróða til hamingju með árangurinn!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur