Á morgun, 3. febrúar, hefst keppni á heimsmeistarmóti unglinga í skíðagöngu í Schilpario á Ítalíu. Íslendingar senda þrjá keppendur til leiks, þar á meðal Fróði Hymer úr Skíðagöngufélaginu Ulli.
Fróði er að keppa á sínu öðru heimsmeistarmóti unglinga en í fyrra náði hann frábærum árangri þegar hann var rétt um einni sekúndu frá því að komast í úrslit í sprettgöngu. Í kjölfarið á sprettgöngunni veiktist Fróði og var því ekki meira með á mótinu í fyrra. Það verður því spennandi að sjá hvernig okkar manni tekst til á mótinu í ár.
Það sem af er vetri hefur gengið vel hjá Fróða sem hefur aðalega verið að keppa í norsku bikarmótaröðinni, Norges- Cup. Hann náði til að mynda sterku 34. sæti af 210 keppendum í 10 km göngu með frjálsri aðferð í Lygna skömmu fyrir jól. Þá náði Fróði 4. sæti á sterku opnunarmóti sænska keppnistímabilsins í Bruksvallarna, einnig í 10 km með frjálsri aðferð.
Samkvæmt heimildum er góð stemming á meðal Íslensku keppandanna og eftirvænting fyrir komandi keppnum. Auk Fróða eru Ísfirðingarnir Ástmar Helgi Kristinsson og Grétar Smári Samúelsson með á morgun. Fróði er með rásnúmer 62 og startar um kl. 10, Ástmar Helgi ræsir skömmu síðar með rás númer 64 og þá Grétar Smári með rásnúmer 76.
Áhugasömum er bent á beina útsendingu frá keppninni. Að auki er hægt að fylgjast með millitímum og sjá úrslit hér.
Skíðagöngufélagið Ullur sendir baráttukveðjur til Fróða og félaga!