Aðalfundur 2011

Aðalfundur Skíðagöngufélagsins Ullar var haldinn í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal miðvikudaginn 6. apríl 2011 kl. 20. Birgir Gunnarsson var kosinn fundarstjóri og Óskar Jakobsson fundarritari.
Dagskrá fundarins var að mestu venjuleg aðalfundarstörf. Þóroddur formaður las skýrslu síðasta starfsárs og var hún samþykkt án athugasemda. Sama gilti um ársreikninga sem Sigurður gjaldkeri lagði fram og skýrði. Einn dagskrárliður gerði ráð fyrir að samþykkt yrði fjárhagsáætlun næsta starfsárs. Ákveðið var að félagsgjald skyldi verða 3000 kr. en að öðru leyti var ekki gengið frá fjárhagsáætlun. Ástæða þess er sú að ekki hefur enn verið gengið frá deiliskipulagi í Bláfjöllum en áður en það liggur fyrir er ekki hægt að ráðast í neinar meiri háttar framkvædir þar, svo sem vatnsveitu eða viðbótarhús. Ef stefnir í stór útgjöld mun verða boðað til félagsfundar um þau.
Nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins. Þóroddur F. Þóroddsson var kosinn formaður áfram með innilegu lófataki en önnur í stjórn voru kjörin Ari Wendel, Haraldur Ingi Hilmarsson, Málfríður Guðmundsdóttir og Óskar Jakobsson. Varamenn voru kjörin Guðmundur Hafsteinsson og Hugrún Hannesdóttir. Stjórnin mun koma fljótlega saman og skipta með sér verkum og þá verður einnig gengið frá skipun í nefndir.

Gunnar Birgisson tekur við bikar Skíðasamband Íslands en hann varð bikarmeistari með fullt hús stiga. Ingólfur Arnarson fylgist með af velþóknun.
Fundurinn samþykkti samhljóða að styrkja helsta afreksmann félagsins, Gunnar Birgisson, til þátttöku í skíðamótum erlendis. Gunnar, sem er aðeins 16 ára, hefur stundað íþróttina af mikilli elju og náð árangri samkvæmt því. Hann sigraði t.d. í sínum aldursflokki á öllum stigamótum Skíðasambandsins og nú síðast á Skíðamóti Íslands. Hann hefur einnig náð ágætum árangri á mótum erlendis.
Þá var samþykkt samhljóða að stofna ferðasjóð sem hefði það að markmiði að styrkja börn og unglinga til að taka þátt í skíðamotum erlendis vegna mikils kostnaðar við slík ferðalög. Þá skyldi sjóðurinn einnig styrkja börn og unglinga til að taka þátt í Andrésarleikunum með því að gefa þeim fatnað til að nota á mótunum. Fjáröflun til sjóðsins yrði með frjálsum framlögum, ferðastyrkjum sem félagið fær frá íþróttahreyfingunni og annarri fjáröflun sem félagið stendur fyrir í þessum tilgangi. Nýta má allan sjóðinn á hverjum starfsvetri ef þess er talin þörf en úthlutun er í höndum stjórnar félagsins sem gerir grein fyrir henni á aðalfundi hvert ár. Reglur þessar verði endurskoðaðar á næsta aðalfundi.

Skýrslu formanns um starfsemi félagsins árið 2010 má lesa hér:  Skýrsla 2010

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur