Þriðja og síðasta degi bikarmóts SKÍ í skíðagöngu lauk í blíðskaparveðri fyrr í dag. Veðurguðirnir léku við keppendur og áhorfendur, sól og logn!
Keppt var í lengri vegalengdum með frjálsri aðferð og var á tíma mikil umferð í 2,5 km löngu brautinni þegar flestir keppendur voru komir af stað. Brautin lá um Strompana sem gerir keppnina sérlega áhorfendavæna enda sést hún nær öll frá Ullarskálanum og marksvæðinu.
Í fyrsta sæti í karlaflokki varð Ísfirðingurinn Snorri Einarsson sem var rétt um mínútu fljótari en Akureyringurinn Ævar Freyr Valbjörnsson. Í Kvennaflokki náði Ullungurinn Kristrún Guðnadóttir bestum tíma og var um 5 mínútum á undan Maríu Kristínu Ólafsdóttir, einnig úr Ulli.
Í flokki stúlkna 15-16 ára varð Svava Rós Kristófersdóttir, Ólafsfirði, fljótust eða 17 sekúndum á undan Guðrúnu Ósk Auðunsdóttur einnig frá Ólafsfirði. Þá varð Eyþór Freyr Árnason fljótastur 15-16 ára drengja, 25 sekúndum á undan Ólafsfirðingnum Árna Helgasyni.
Það var einnig hart barist í 13-14 ára flokki stúlkna en þar sigraði María Sif Hlynsdóttir frá Ísafirði, 26 sekúndum á undan Birnu Dröfn Vignisdóttir, Skíðafélagi Strandamanna. Ullungurinn Daði Pétur Wendel varð fljótastu í flokki 13-14 ára drengja og sigraði með 8 sekúndna mun. Annar varð Strandamaðurinn Jökull Ingimundur Hlynsson.
Öll úrslit frá helginni má nálgast á timataka.net. Stöðuna í bikarkeppninni má sjá hér.
Skíðagönguféalgið Ullur þakkar öllum keppendum, þjálfurum, aðstoðarfólki, sjálfboðaliðum, áhorfendum og öðrum sem lögðu leið sína í Bláfjöll um helgina, kærlega fyrir samveruna. Sjáum svo vonadi sem flesta í Bláfjallagöngunni 14. og 16. mars 2024.