Uppskeruhátíð í Bláfjöllum

Ullungar héldu uppskeruhátíð vetarins við Þóroddsstaði í Bláfjöllum sunnudaginn 6. maí og fögnuðu unnum afrekum. Hátíðarhöldin hófust með boðgöngu þar sem fjórar sveitir öttu kappi.

Íþróttaafrekum var ekki þar með lokið því þá tók við keppnin um Ullarásinn en þar skyldu keppendur ýta sér upp með stólalyftunni í Suðurgili og hlaut sá nafnbótina sem hæst komst. Leikar fóru svo að Óskar Jakobsson varð Ullarás eftir harða baráttu við Snorra Ingvarsson og Þórhall Ásmundsson.

Þá voru grillin þanin, Þóroddur og Óskar sýndu snilldartakta við eldamennskuna og aðrir viðstaddir létu ekki sitt eftir liggja við að gera veitingunum góð skil.

Hátíðinni lauk með góðri göngu, líklega um 16 km hring, um Bláfjallasvæðið undir leiðsögn Þórodds og Trausta Tómassonar. Lítið var orðið um troðin spor en það kom ekki að sök því færið var ákaflega gott, þéttur snjór þar sem sólskinið hafði mýkt efsta lagið. Það var því leikur einn að ganga ótroðnar slóðir, jafnvel á mjóstu skíðum.


Enn er nægur snjór í Bláfjöllum og það er ástæða til að hvetja alla til að nýta hann næstu vikurnar. Þetta er í rauninni besti tíminn til skíðagöngu um Bláfjöllin, ekki síst þegar veðrið leikur við fólk eins og það gerði þennan dýrðardag.

Fleiri myndir frá hátíðinni eru komnar í myndasafnið, smellið á myndina í hægri dálkinum.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur