Fimm ungmenni frá Ulli eru nú á leið heim úr æfinga- og keppnisferð til Beitostølen í Noregi. Þar hafa þau dvalið við frábærar aðstæður frá því 28. des, ásamt 15 manna hópi frá öðrum félögum í hæfileikamótun Skíðasambands Íslands, og þjálfurum og farastjóra.
Þjálfari í ferðinni var sérlegur vinur okkar Ullunga, Önfirðingurinn Þorsteinn Hymer en hann er búsettur í Noregi og hefur komið nokkrum sinnum með syni sína á Andrésar Andarleikana og verið þá hluti af Ullarhópnum. Aðstoðaþjálfari í ferðinni var Ólafur Th. Árnason, sem hefur verið einn af máttarstólpunum í barna- og unglingastarfinu okkar og fararstjóri var Heiðrún Erika Guðmundsdóttir sem hefur verið virk í foreldrastarfinu okkar. Hún hefur séð einstaklega vel um allan hópinn.
Hæfileikamótun Skíðasambandsins er ætluð unglingum á öllu landinu sem stunda skíðagönguíþróttina og tilgangurinn að efla íþróttina og iðkendur með nokkrum samæfingum á ári. Þetta gefur krökkunum gríðarlega mikið, ekki síst félagslega.
Ullur á orðið mjög frambærilegan hóp unglinga sem æfir allt árið um kring undir stjórn Steven Musky-Stalker Gromatka og verður gaman fylgjast með framförum og árangri næstu árin hjá þessu efnilega skíðafólki.