Um helgina keppti landsliðskonan Kristrún Guðnadóttir á opnunarmóti sænska skíðasambandsins í Gällivare í norðurhluta Svíþjóðar. Mótið er eitt það sterkasta á tímabilinu þar sem fremstu skíðagöngustjörnur Svíþjóðar og víðar hefja keppnistímabilið. Auk Kristrúnar tóku þátt landsliðsfélagarnir Dagur Benediktsson, Einar Árni Gíslason og Ástmar Helgi Kristinsson.
Kristrún er fyrst og fremst þakklát fyrir að vera komin til baka eftir erfið og þrálát meiðsli. Hún gat lítið sem ekkert æft í um níu mánuði, en æfingar hafa gengið vel síðan hún jafnaði sig. „Ég hefði viljað gera betur bæði í Finnlandi um síðustu helgi og núna í Svíþjóð, en ég er að bæta mig – sérstaklega í sprettgöngu,“ segir hún. Lengri göngurnar, bæði 10 km skaut og 10 km hefðbundið, reyndust hins vegar erfiðar. „Ég finn að ég keppti ekkert síðasta vetur og á enn í land með að ná fyrra formi, en ég stefni ótrauð á að komast í betra form síðar í vetur.“
Skíðagöngufélagið Ullur sendir Kristrúnu baráttukveðjur inn í veturinn.