Þegar Bláfjöllin sýna sig frá þeirri hlið sem þau gerðu í dag er erfitt að hugsa sér að til sé betra og fallegra skíðagöngusvæði. Sólin skein, vindurinn rétt náði að breiða úr flöggum svo mætti sjá hvað á þeim stóð og nýr og hvítur snjór yfir öllu. Skíðafærið ævintýralega gott þannig að keppendur voru mun fljótari að ganga hringinn nú með hefðbundinni aðferð en með frjálsri aðferð daginn áður. Síðasti hluti hringsins er löng og brött brekka sem endar með beygju niður að markinu og keppendur komu brunandi á gríðarlegri ferð gegnum markið.
Keppnin varð jöfn og spennandi. Mest varð dramatíkin í kvennaflokki. Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Eðalullungur til skamms tíma en keppir nú fyrir SFÍ, kom fyrst fram á brekkubrúnina, góðan spöl á undan Veroniku Lagun frá Akureyri. En Völu hlekktist á í síðustu beygjunni og missti ferðina, Veronika gerði hins vegar engin mistök og tókst að skjótast fram úr og kom einni sekúndu á undan í mark. Í þriðja sæti varð Ólafsfirðingurinn Svava Jónsdóttir sjö sekúndum á eftir.
Í flokki pilta 17-19 ára urðu úrslit eins og daginn áður. Stolt okkar Ullunga, Gunnar Birgisson, sigraði nokkuð örugglega, í öðru sæti varð Sindri Freyr Kristinsson frá Akureyri og í þriðja sæti Kristinn Þráinn Kristjánsson frá Akureyri.
Í karlaflokki sigraði Sævar Birgisson, SÓ, með glæsibrag. Andri Steindórsson, SKA, náði sér á strik eftir tvo erfiða daga og varð í öðru sæti og í þriðja sæti varð fyrrum Ullarkempan Daníel Jakobsson sem nú getur ekki verið þekktur fyrir annað en að keppa fyrir Ísafjörð.
Hér má svo finna nánari upplýsingar um úrslitin til þessa:
Sprettganga, 31. mars: Sprettganga
Frjáls aðferð, 1. apríl: Frjáls aðferð
Hefðbundin aðferð, 2. apríl: Hefðbundin aðferð
Tvíkeppni (frjáls aðferð + hefðbundin): Tvíkeppni
Verðlaun félaga: Verðlaun
Nú er aðeins ólokið keppni í boðgöngu en hún fer fram á morgun kl. 11:00. Veðurútlit er gott og það er óhætt að hvetja alla til að koma og fylgjast með skemmtilegri keppni og reyna sig svo í frábærri göngubraut að henni lokinni.