Kristrún Guðnadóttir keppti í 10 km göngu með frjálsri aðferð í gær. Kristrún bætti sig mikið frá því á heimsmeistaramótinu 2019 í Seefeld í Austurríki (74. sæti, 6:59 á eftir fyrsta) í sömu grein og endaði í 58. sæti, um 4:48 á eftir sigurvegaranum Jessie Diggins frá Bandaríkjunum. Til hamingju Kristrún!
Klukkan 11:20 í dag hefst bein útsending á RÚV frá heimsmeistaramótinu í skíðagöngu þar sem keppt verður í 15 km göngu karla með frjálsri aðferð. Á meðal keppenda er Snorri Eyþór Einarsson úr Skíðagöngufélaginu Ulli og Ísfirðingarnir Albert Jónsson og Dagur Benediktsson. Snorri er með rásnúmer 69 og fer af stað kl. 12:04:30. Albert og Dagur eru númer 82 og 83 og fara af stað kl. 13:11:00 og 13:11:30.
Snorri átti frábæra 30 km skiptigöngu föstudaginn 24. febrúar þegar hann endaði í sterku 28. sæti af um 60 keppendum sem hófu keppni. Snorri náði líka frábærum árangri, ásamt Degi, í liðasprettinum sem haldinn var 26. febrúar síðastliðinn. Þar enduðu þeir félagar í 22. sæti en komust ekki áfram í úrslit.
Skíðagöngufélagið Ullur hvetur alla til að stilla inn á beina útsendingu og senda íslensku keppendunum góða strauma. Áfram Snorri! Áfram Ísland!
Mynd frá Nordic Focus Picture Agency