Fjórir frá Ulli með í Gålå

Um nýliðna helgi var mikið um að vera hjá okkar fremsta skíðagöngufólki. Á norska bikarmótinu í Gålå átti Ullur hvorki meira né minna en fjóra keppendur, þau Kristrúnu Guðnadóttur, Fróða Hymer, Hjalta Böðvarsson og Maríu Kristínu Ólafsdóttur. Kristrún og Fróði keppa í flokki fullorðinna en Hjalti og María Kristín í unglingaflokki. Auk þeirra voru fleiri keppendur frá Íslandi: Grétar Smári Samúelsson og Ástmar Helgi Kristinsson frá Ísafirði og Arna Sigríður Albertsdóttir sem keppti í para-skíðagöngu. Þá voru Akureyringarnir Einar Árni Gíslason og Ævar Freyr Valbjörnsson líka með – alls níu íslenskir keppendur!

Ullungarnir áttu fínar göngur en nokkuð frá sínu besta. Kristrún keppti í hefðbundinni sprettgöngu á laugardeginum þar sem hún var nokkuð frá sínu besta. Aðspurð segist Kristrún finna fyrir framförum frá fyrsta móti vetrarins helgina áður. Hún stefnir nú á að nota desember og janúar vel í æfingar. „Þá kemur þetta allt,“ segir hún að lokum.

Fróði keppti í báðum lengri göngunum, 10 km frjálsri göngu á föstudag og 20 km hefðbundinni göngu á sunnudag. Á föstudag átti Fróði góða göngu og háði harða baráttu við Einar Árna frá Akureyri. Þeir skiptust á að vera á undan alla gönguna. Í marki var Einar einni sekúndu á undan Fróða – sannkallað sekúndustríð! Niðurstaðan var 119. sæti af 166 keppendum og rétt rúmum þremur mínútum á eftir sigurvegaranum. Að sögn Fróða náði hann ekki að gera jafn góðar göngur og í Beitostölen viku fyrr: „Mér leið vel en fannst ég ekki ná að ganga nógu hratt.“ Á sunnudag féll fátt með Fróða. Í miðri göngu fann hann að hlutirnir voru ekki að ganga upp; maginn var að trufla. Hann kláraði því ekki gönguna.

María Kristín keppti á laugardag í sprettgöngu með hefðbundinni aðferð og í 7,5 km hefðbundinni göngu á sunnudag. Undanfarið hefur María Kristín glímt við þrálát veikindi sem settu undirbúninginn fyrir mótið úr skorðum. Hún er ánægð með að vera komin í gang aftur og stefnir ótrauð áfram. Árangurinn var ekki eins og hún óskaði sér, en það er nóg eftir af vetrinum.

Hjalti tók að sér að vera hrakfallabálkur ferðarinnar. Aðspurður segir Hjalti að helgin hafi gengið illa. Í sprettgöngunni gekk að hans sögn ekki vel: „Ég tapaði meira að segja fyrir bekkjarbróður mínum sem er búinn að vera veikur í heilt ár!“ segir Hjalti svekktur og bætir við: „Ég er greinilega enginn sprettari.“ Aftur á móti gekk Hjalta vel í 10 km hefðbundinni göngu á sunnudag – þar til ógæfan dundi yfir. Um hálftíma fyrir start varð hann var við að annar skíðaskórinn var að bila; sólinn var að losna af! Í örvæntingu sinni hljóp Hjalti á milli þjónustuaðila á svæðinu, eins og Fischer og Swix, til að finna lím sem gæti reddað málunum. Hann fékk aðstoð og skórinn var nýlímdur þegar af stað var farið. Það dugði þó ekki nema í um 1,5 km; þá losnaði sólinn að miklu leyti og snjór tók að safnast inn í skóinn með tilheyrandi veseni. Gangan var því ónýt og lítið annað að gera en að hætta keppni.

Að móti loknu hélt hópurinn til Sjusjöen þar sem Ullungurinn Einar Ólafsson bauð hópnum að dvelja ásamt ásamt fleiri Íslendingum sem þar eru við æfingar. Höfðinglega boðið og frábært tækifæri fyrir krakkana til að æfa saman.

Öll úrslit frá mótinu má nálgast hér.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur