Keppni í sprettgöngu fór fram samkvæmt áætlun við skála Ullar í Bláfjöllum. Veðurútlit var að vísu ekki gott, gekk á með hvössum rigningar- og slydduhryðjum. Á farastjórafundi skömmu áður en mótið skyldi hefjast var ákveðið að láta engan bilbug á sér finna. Rétt áður en gangan hófst stytti svo upp og veður hélst gott meðan á göngunni stóð.
Í kvennaflokki voru þrjár stúlkur skráðar til leiks. Fyrsti Íslandsmeistari þessa móts varð Silja Rán Guðmundsdóttir SFÍ, önnur varð Svava Jónsdóttir SÓ og þriðja Magnea Guðbjörnsdóttir SÓ.
Í karlaflokki mættu 12 keppendur til leiks og þar urðu Ólafsfirðingar sigursælir. Íslandsmeistari varð Sævar Birgisson SÓ, annar varð Kristján Hauksson SÓ og þriðja sætinu náði Sigurbjörn Þorgeirsson SÓ eftir æsispennandi og jafna keppni við Gunnar Birgisson Ulli.
Úrslitunum verða gerð betri skil síðar.