Þann 8. febrúar 2009 urðu tímamót í sögu félagsins er það fékk afhenta lykla að skála í Bláfjöllum til afnota. Skálinn nýttist takmarkað í fyrstu þar sem hann var staðsettur á bílaplani nærri nýjum skála ÍR og Víkings. Skálinn er um 35 fermetrar og í eigu ÍTR. Félagið fékk styrk frá ÍTR til að laga plan undir skálann við sléttuna sunnan Suðurgils og til að flytja húsið þangað. Stöðuleyfi fyrir húsið fékkst með bréfi byggingarfulltrúa Kópavogs 17. september 2009 og skálinn var fluttur 27. september. Í skálanum er fyrst og fremst aðstaða fyrir skíðagöngufólk er vill nota skálann sem áningarstað, einnig eru þar smurbekkir til afnota og geymslur fyrir skíðabúnað í eigu félagsins. Þá mun skálinn væntanlega nýtast vel við mótahald, æfingar og námskeið og sannaðist það á Skíðamóti Íslands 2011 þegar Ullur stóð fyrir keppni í skíðagöngu.
Í framtíðinni er hugmyndin að fá annað hús til að setja niður við hlið skálans þar sem yrðu snyrtingar, geymslur og smuraðstaða og húsin tengd með palli.
Skálinn stendur við Neðri-Sléttu, rétt hjá Suðurgilslyftu. Upplagt er fyrir skíðagöngufólk að leggja bílum þar.
Það er stefna félagsins að skálinn sé opinn um helgar kl. 10-16 þegar skíðasvæðið er opið og aðrir skálar á svæðinu eru opnir. Starfsemi félagsins hvílir hins vegar á mjög fámennum hópi og til þess að hægt sé að hafa skálann opinn reglulega um hverja helgi er nauðsynlegt að hinir almennu félagsmenn leggi stjórninni lið og bjóðist til að taka þátt í skálavörslunni. Í því felst einkum að opna skálann og ganga frá í lok dags, einnig að vera til staðar fyrir þá sem þangað leita og aðstoða þá sem vilja fá leigðan skíðabúnað. Lista yfir þau verkefni sem gert er ráð fyrir að skálavörður sinni er hér og þau sem vilja taka þátt í þessu mikilvæga verkefni geta skráð sig á sömu síðu: Skálavakt – verkefni og skráning á vakt
Myndirnar hér fyrir neðan voru teknar meðan Skíðamót Íslands 2011 stóð yfir og má þar átta sig á staðsetningu skálans. Neðst á síðunni er loftmynd þar sem skálinn og helstu kennileiti eru merkt inn.