Skíðavertíðin er að hefast!

Húrra! Skíðavertíðin er að hefjast fyrir alvöru hjá Ulli og því langar okkur að fara yfir stöðu mála.

Bláfjöll sporlagning

Bláfjallamenn hafa verið að undirbúa sporlagningu með því að útbúa ruðninga í grunnhring til snjósöfnunar og troða undirlag. Það virðist hafa dugað til að koma í veg fyrir að hláka síðustu daga hafi tekið upp sporið. Vel gert hjá Bláfjallamönnum! Við bindum því vonir við að hægt verði að troða alvöru spor í grunnhringinn (3km kringum hól) í dag föstudag eða í síðasta lagi á mánudag.

Bláfjöll salernismál

Sem fyrr verðum við að notast við salernisgám í vetur og er stefnt að því að hann komi á svæðið um helgina. Ullur hefur síðastliðin ár barist fyrir bættri/varanlegri salernisaðstöðu fyrir skíðagöngufólk enda öllum ljóst að núverandi aðstaða er með öllu óboðleg . Ein af þeim hugmyndum sem hafa verið á borðinu er að slík aðstaða væri í nýju lyftuhúsi Gosalyftu (við bílastæði göngusvæðis). Þar sem talsverð óvissa ríkir um tímasetningu þeirrar framkvæmdar hefur Ullur óskað eftir því við stjórn Skíðasvæðisins að í vor verði hafist handa við uppbyggingu sjálfstæðs varanlegs salernishúss sem gæti þá þjónað skíðagönguiðkendum og Gosalyftu.

Bláfjöll skálamál

Í haust var skálinn okkar, Þóroddstaðir, málaður að utan og er því í ágætis standi. Víð bíðum spennt eftir því að Covid takmörkunum verði aflétt og hægt verði hægt að opna hann fyrir gestum. Gaman er að geta þess að stjórn Ullar hefur leitað eftir tilboðum í nýjan skála til að hýsa starfsemi félagsins. Hugmyndin er að slíkur skáli væri um 80fm og gæti því rúmað betur hinn mikla fjölda félagsmanna, ásamt því að skapa betri aðstöðu fyrir barnastarf, námskeiðahald og keppnisumsjón. Þóroddsstaðir er til samanburðar 35fm, en hann yrði með komu nýja skálans nýttur fyrir skíðaleigu, smuraðstöðu og geymslu.

Námskeiðahald og æfingar

Fyrstu námskeið hefjast 4. janúar 2021 og varð mjög fljótt uppselt og eru næstu námskeið fyrirhuguð í febrúar og verða auglýst fljótlega.

Starfsmaður Ullar

Elsa Gunnarsdóttir hefur verið ráðin starfsmaður í vetur og bjóðum við hana innilega velkomna.

Heiðmörk sporlagning

Sem fyrr mun Ullur í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg sjá um sporlagningu í Heiðmörk. Í sumar var ráðist í að útbúa tengibraut frá Elliðavatnsbæ/Helluvatni að göngusporinu okkar, en um er að ræða um 2,3km leið meðfram vatnsverndarsvæðinu. Með þessari framkvæmd sem kostuð var af OR er tryggt aðgengi að göngubrautinni þó að veginum sé lokað vegna vatnsverndarsjónarmiða og á sama tíma mun bílastæðum fjölgað til muna. Þessi braut er skemmtileg viðbót við núverandi 4 og 8km hringi og bíður líka upp á að hægt sé að útbúa styttri og auðveldari hringi nær Elliðavatnsbænum. Búið er að fjárfesta í staðsetningarbúnaði (www.skisporet.no) fyrir sporann okkar sem hægt er að tengja við heimasíðu og Facebook síður Ullar og Heiðmerkur. Með þessu ætti upplýsingagjöf um stöðu brautarlagningar að batna til muna. Það styttist vonandi í að hægt verði opna þetta spor.

Barna- og unglingastarf

Veturinn 2020-2021 verða reglulegar æfingar fyrir börn og unglinga á vegum Ulls undir stjórn Sigrúnar Auðardóttur þjálfara. Æfingarnar eru fyrir 6 ára (2014) og eldri. Fyrirkomulag þeirra í haust verður með eftirfarandi hætti: Æfingar barna- og unglinga verða tvisvar í viku þar til æfingarnar færast á snjó, kl. 18:00 á miðvikudögum og kl. 11:00 á laugardögum. Þegar snjórinn kemur verður að auki æft á sunnudögum kl. 11:00. Helgaræfingarnar færast þá í Bláfjöll. Nýir iðkendur eru alltaf velkomnir og þeir sem hafa áhuga á að bætast í hópinn geta sent fyrirspurn á krakkaullur@gmail.com. Einnig má hringja í síma 860 1740 í Sigrúnu Melax. Við stefnum á að vera með leikjadag upp í Bláfjöllum í janúar þar sem allir krakkar eru velkomnir að koma og taka þátt og prófa gönguskíði. Við munum auglýsa þetta síðar.

Mótahald

Fyrirhugað er að halda Bikarmót/FIS mót í Bláfjöllum helgina 29. – 31. janúar og svo er Bláfjallagangan á dagskrá laugardaginn 20. mars. Stefnum að því að vera einnig með að minnsta kosti eitt innanfélagsmót, nánari tímasetning á því verður auglýst síðar. Vonum að við getum haldið áætlun hvað varðar mótin í vetur en munum að sjálfsögðu fara eftir gildandi sóttvarnarreglum á hverjum tíma.

Könnun meðal félagsmanna

Við munum á næstu dögum setja á heimasíðuna okkur og á Facebook stutta viðhorfskönnun þar sem okkur langar að heyra ykkar álit á starfinu því það skiptir okkur máli. Vonandi náið þið sem flest að svara þegar við sendum út.

Félagsskírteini og 20% afsláttur af árskortum.

Félagsgjaldið er 4.200 krónur fyrir veturinn 2020- 2021, hægt er að skrá sig hér, og birtast skírteinin rafrænt í Aur appinu. Ef þú ert félagi í Ulli þá nýtur þú afsláttarkjara hjá mörgum af okkar velunnurum.

Árskort í brautina eru á 20% afslætti út desember og hægt að ganga frá kaupum á heimasíðu skíðasvæðisins. Einnig er alltaf hægt að kaupa stakan dagsmiða á sama stað.

Við hlökkum til vetrarins með ykkur, sjáumst í sporinu

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur