Skíðasamband Íslands hefur tilkynnt fullskipaðan hóp Íslands á Vetrarólympíuleikunum í Milano Cortina 2026, sem hefjast 6. febrúar. Þar ber hæst að Kristrún Guðnadóttir, skíðagöngukona úr Skíðagöngufélaginu Ull í Reykjavík, keppi nú á sínum öðrum Ólympíuleikum, eftir að hafa fyrst tekið þátt á leikunum árið 2022.
Kristrún keppir í sprettgöngu 10. febrúar og 10 km göngu með frjálsri aðferð þann 12. febrúar, tveimur greinum þar sem hún hefur sýnt stöðugan árangur undanfarin misseri. Framundan eru spennandi keppnir gegn sterkasta keppendahópi heims. Aðspurð segir Kristrún að æfingar gangi eftir plani og hún sé spennt fyrir verkefnini. „Ég stefni á að vera í besta formi lífs míns leftir tvær vikur“ segir Kristrún ákveðin.
Í skíðagönguliði Íslands er einnig Dagur Benediktsson frá Ísafirði, sem tekur þátt í fjórum greinum.
Með skíðagönguliðinu starfar aðstoðarfólk sem tryggir besta mögulega undirbúning keppenda þegar á leikana er komið. Þeirra á meðal er Ullungurinn Ólafur Th. Árnason, sem ásamt Snorra Einarssyni frá Ísafirði deila hlutverki flokksstjóra í skíðagöngu, sitthvort tímabilið. Þá verður Vegard Karlstøm landsliðsþjálfari ásamt þeim Esben Tøllefsen og Erlend Skippervik sem sjá um skíði og sjúkraþjálfun liðsins.
Skíðagöngufélagið Ullur óskar Kristrúnu til hamingju með valið og óskar henni góðs gengis á leikunum!