Enn bólar lítið á snjó hér á höfuðborgarsvæðinu svo þeir, sem hyggjast láta til sín taka í löngum og erfiðum göngum í vetur, verða enn að sætta sig við hjólaskíðin sem eitt helsta æfingatækið. Það er því rétt að ítreka hér ábendingu sem Árni Tryggvason setti á fésbókarsíðu Ullar fyrir nokkru. Gefum Árna orðið:
„Mig langar til að vekja athygli ykkar í skemmtilegu svæði fyrir hjólaskíðin. Nú er verið að klára að malbika stíga hér við efri hluta GKG golfvallarins (Vífilsstaðavallar) þar sem hann er hér hjá Salahverfi í Kópavogi. Með þessari viðbót er komin frábær hringleið. Sjálfur hef ég verið að æfa á þessum slóðum og svæðið er með þeim betri. Hér er ég búinn að merkja inn á kort (sjá meðfylgjandi mynd, smellið á hana til að sjá stærri mynd eða hér til að sjá hana í fullri upplausn) þessa nýju leið sem á kafla liggur eftir götum þar sem mjög lítil akandi umferð er, en annars um 85% eftir stígum. Þessi hringur er nákvæmlega 4 km.
Salalaug er tilvalin upphafsstaður og svo toppar það allt að geta endað þar í pottinum“.