Ullungarnir Hjalti Böðvarsson og María Kristín Ólafsdóttir hafa verið valin fyrir Íslands hönd til að taka þátt í Olympíuleikum ungmenna (YOG – Youth Olympic Games) í Gangwon í Suður Kóreu daga 21. – 30. janúar.
Þau tryggðu sér sæti í þessari stóru keppni á úrtökumóti sem haldið var á Akureyri helgina 8.-10.desember sl. Þar sigraði María Kristín í öllum sínum göngum og Hjalti var á undan mögulegum keppendum á YOG í tveimur af þremur greinum. Þetta er gríðarlegur heiður fyrir þessa efnilegu íþróttamenn sem hafa lagt mjög hart að sér í allt sumar og í haust og ekki síður fyrir okkur Ullunga og það öfluga og metnaðarfulla starf sem félagið hefur staðið fyrir undanfarin ár, fyrir börn og unglinga.
Þau Hjalti og María eru lögð af stað í æfinga- og keppnisferð ferð til Þýskalands og verða þar í 2 vikur í lokaundirbúningi fyrir leikana. Þau eru búin að vera á ferð á flugi í haust ásamt félögum sínum í Ulli og Hæfileikamótun SKÍ en þau fóru til Noregs í nóvember, þar sem þau dvöldu í 2 vikur við æfingar og tóku ma. þátt á sterku norsku bikarmóti (Norges Cup).
Við óskum þeim Hjalta og Maríu til hamingju með valið!