Vel heppnuð lokahátíð

Ullungar kvöddu vetur og fögnuðu sumri með vel heppnaðri samkomu í norska húsinu í Heiðmörk, Þorgeirsstöðum. Veðrið gat ekki verið betra, glaðasólskin og hlýtt svo golan skipti varla máli. Þarna var vissulega góðmennt þótt fleiri hefðu mátt láta sjá sig. Eftir lystaukandi rathlaup var grillið tekið til kostanna og stóð það vel fyrir sínu svo allir fóru heim saddir og sælir.

Rathlaupið vakti nokkra forvitni en fæstir höfðu kynnst slíku áður. Í boði voru tvær brautir, lengri og erfiðari brautin var 1,8 km (níu póstar) en sú styttri og auðveldari var 1,1 km (sex póstar). Flestir völdu styttri brautina og kom það undirrituðum nokkuð á óvart að skíðagöngumenn, sem víla ekki fyrir sér að ganga marga tugi km á skíðum, skyldu vera svo hógværir þegar koma að því að skokka um skóginn. Flestir ljómuðu þó af gleði þegar þeir komu í mark þótt einstakir póstar hefðu reynst sumum erfiðir. En úrslit urðu eftirfarandi:

Styttri braut:
1. Málfríður Guðmundsdóttir 18:54
2. Þóroddur F. Þóroddsson 21:38
3. Óttar Páll Wendel 23:08
4. Þórhallur og Haraldur 24:02
5. Vilborg og Gísli 30:25
6. Elín, Harpa og Eva 39:34

Lengri braut:
1. Ingvar og Ragnhildur 1:00:04

Þeim, sem vilja – eða hafa nú þegar – ánetjast þessari stórskemmtilegu íþrótt og vilja nota hana til að krydda sumaræfingarnar skal bent á vefsíðu Rathlaupsfélagsins Heklu, http://rathlaup.is. Þar má finna allar upplýsingar um félagið og íþróttina, m.a. hlaupadagskrá sumarsins en félagið stendur fyrir rathlaupi a.m.k. vikulega í allt sumar.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur