Vangaveltur um Íslandsgöngustig

Nú er aðeins ein ganga eftir af Íslandsgöngum vetrarins. Fossavatnsgangan, eða Fossavatnshlaupið eins og gangan hét lengi vel, fer fram um næstu helgi og þar þarf að ganga 50 km til að fá Íslandsgöngustig. Stigastaðan eftir fimm göngur er komin inn á síður Íslandsgöngunnar á vef SKÍ og reyndar einnig á Ullarvefinn, sjá hér. Í töflunni má sjá að í sumum flokkum er staðan tvísýn og spennan líklega hvergi meiri en í flokki karla 50 ára og eldri þar sem Ullungarnir Þórhallur Ásmundsson og Gunnlaugur Jónasson bítast um sigurinn, aðeins munar fimm stigum á þeim þannig að gangan verður hrein úrslitaganga. En þeir verða að halda vel á spöðunum því Siglfirðingurinn sterki, Magnús Eiríksson er aðeins 22-27 stigum á eftir þeim.

Í hinum karlaflokkunum er baráttan um fyrsta sætið hins vegar þegar útkljáð. Í flokki 35-49 ára hefur Strandamaðurinn spræki, Birkir Þór Stefánsson, yfirburðastöðu og sama er að segja um Martin Matzner, sem keppir fyrir Ull, í flokki 16-34 ára. Af konum standa Ísfirðingarnir Katrín Árnadóttir og Guðbjörg Rós Sigurðardóttir langbest að vígi í tveimur yngri flokkunum. Í elsta flokknum hefur Guðrún Pálsdóttir frá Siglufirði forystu sem gæti dugað henni til að halda fyrsta sæti án þess að keppa á laugardaginn en hún virðist enn ekki hafa skráð sig í gönguna á laugardaginn. Þá hefur Ullungurinn Kristjana Bergsdóttir tryggt sér sæti á verðlaunapallinum.

Nú á kosningadag eru margir að setja sig í stellingar til að rýna í tölur og þeir sem verða fyrir vonbrigðum með kosningatölurnar gætu þá snúið sér að töflunni hér fyrir neðan. Þar hefur verið tekin saman frammistaða einstakra skíðagöngufélaga, svo sem fjöldi keppenda frá hverju félagi, hve margar göngur frá hverju félagi og stigafjöldi hvers félags. Þá eru dálkar fyrir göngur á keppanda (G/K), stig í göngu (S/G) og stig á keppanda (S/K). Það er ljóst að Ullungar mega vera stoltir af sinni frammistöðu með flesta keppendur í þessum almenningsgöngum og flest stig samtals, jafnvel þótt Ísfirðingar séu vísir til að vinna upp þetta forskot á heimavelli. Ullungar eru því hvattir til dáða!

Það skal tekið fram að þessi tafla er birt „án ábyrgðar“. Það er t.d. hugsanlegt að einhverjir þeirra sem ekki eru skráðir í félag eigi í rauninni heima í einhverju félagi þó að það hafi ekki komið fram í úrslitum einhverrar göngunnar.

SKI_Stig_felog_2013-5

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur

Gróðursetning í Bláfjöllum