Ágætu Ullarfélagar.
Nú er frábærum vetri í starfi okkar lokið. Metþátttaka á námskeiðum. Mikil fjölgun í félaginu og síðast en ekki síst frábær árangur á skíðamótum vetrarins.
Því höfum við ástæðu til að fagna árangrinum og kveðja vertíðina með hófi í góðum félagsskap hvers annars. Hófið verður haldið í Mýrakoti sem er lítill samkomusalur við gróðrastöðina Lambhaga við Úlfarsá. Mýrakot er perla í borginni þar sem við munum eiga frábæra kvöldstund.
Við viljum sjá alla þá sem virkir hafa verið í starfi félagsins í vetur. Allir sem tekið hafa þátt í kennslu, keppt á mótum, verið í skálavörslu, sinnt mótahaldi og öðrum verkefnum. Þolinmóðir makar sem hafa beðið heima á meðan við höfum verið að ganga eru velkomnir.
Ullur býður upp á grillmat og skemmtilegheit. Öllum er velkomið að taka með sér „görótta drykki“ ef þið viljið enda ætlum við að skála oft og mikið fyrir frábæru starfi. Aðgangur er ókeypis, enda hafið þið unnið frábært starf í vetur en samt ætlum við að hafa samskotabauk á staðnum til að halda kostnaði í lágmarki.
Vinsamlegast skráið ykkur á þennan viðburð upp á að við getum áttað okkur á hversu mikinn mat þarf að panta fyrir kvöldið með því að senda póst á ullarpostur@gmail.com með fjölda þátttakenda.
Hlökkum til að sjá ykkur og samgleðjast eftir hreint út sagt frábæran vetur. Næsti vetur verður enn betri.
Stjórn Ullar
Auglýsingu með korti má finna hér.