Nú er öllum mótum Íslandsgöngunnar 2012 lokið en henni lauk að vanda með glæsilegri Fossavatnsgöngu. Þótt brennandi áhugi skíagöngumanna á Íslandsgöngunni sé ekki alltaf augljós eru áreiðanlega ýmsir sem hefðu gaman af að velta fyrir sér úrslitunum. Ekkert hefur enn birst um þau á vefsíðu Íslandsgöngunnar, síðasta hreyfing þar er frá því í haust þegar mótaskráin var kynnt, og þess vegna hefur svolítil samantekt verið sett á þennan vef. Það skal tekið fram að sá, sem það gerir, hefur ekkert umboð til þess frá forsvarsmönnum Íslandsgöngunnar og engin ábyrgð er tekin á að öll stig séu rétt reiknuð. Leiðréttingar og ábendingar eru vel þegnar. En hér má sjá lokastöðuna: Úrslit Íslandsgöngunnar 2012
Það er ýmislegt athyglisvert í þessum tölum. Sem dæmi má nefna að aðeins ein kona lauk þremur göngum sem er tilskilinn lágmarksfjöldi til að komast á verðlaunapall. Aðeins einn lauk fleiri en þremur göngum en sá lauk reyndar öllum fimm. Aðeins einn lauk þremur göngum án þess að komast á verðlaunapall. Þetta samrýmist ekki vel hugmyndum sumra um að almenningsgangan Íslandsgangan eigi að höfða til sem allra flestra og hvetja fólk til að taka þátt í keppni á gönguskíðum.
Það voru 76 sem fengu stig í enhverri göngu. Ef litið er á fjölda þeirra sem fengu stig í einstökum göngum sést að Strandagangan er óumdeilanlega Íslandsganga nr. 1, a.m.k. þennan veturinn. Það er athyglisvert að það eru lengstu göngurnar (Fossavatnsgangan – 50 km, Orkugangan – 35 km (átti að vera 60 km)) sem skila fæstum með stig. Það voru 21 sem fengu stig úr lengstu vegalengd Fossavatnsgöngunnar en ef 20 km gangan þar hefði verið látin gilda til stiga hefðu 55 komist á blað. Það má því velta því fyrir sér hvort hin stórglæsilega Fossavatnsganga, þar sem eitt helsta markmið með 50 km göngunni er að fá sem flesta og öflugasta erlenda kappa til landsins handa íslenskum göngumönnum að reyna sig við, kunni að vera vaxin upp úr hinum þrönga búningi Íslandsgöngunnar, almenningsgöngu sem á að hvetja sem allra flesta til að ganga á skíðum. Það skal þó skýrt tekið fram að hér er alls ekki verið að gagnrýna Fossavatnsgönguna, hún er stolt allra íslenskra skíðagöngumanna og allir vilja veg hennar sem mestan.
Hugsum málið, er Íslandsgangan eins og hún ætti að vera og ef ekki, hvernig ætti hún þá að vera?