Ullungar Skíðafólk ársins 2023

Skíðasamband Íslands (SKÍ) hefur útnefnd Kristrúnu Guðnadóttur skíðakonu ársins og Snorra Einarsson skíðamann ársins. Við erum himinlifandi með þessa útnefningu og óskum þeim til hamingju með árangurinn og ekki á hverju ári sem skíðagöngufólk hlýtur þessa nafnbót, í karla- og kvennaflokki.

Kristrún Guðnadóttir Skíðakona ársins 2023

Kristrún átti mjög gott síðasta ár. Hún tók þátt í tveimur almenningsgöngum, Marcialong 70 km og varð þar í 31. sæti sem er frábær árangur. Hún tók líka þátt í Vasaloppet 90 km þar sem hún endaði í 39. sæti. Bæði þessi úrslit eru langbestu sæti sem íslensk kona hefur náð í lengri göngum. Að auki gerði Kristrún FIS stig á tímabilinu og er ein 6 skíðamanna sem hefur hlotið styrk frá Olympíusamhjálpinni  vegna undirbúnings fyrir Vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina á Ítalíu 2026.

Snorri Einarsson Skíðamaður ársins 2023

Árið var besta ár Snorra fyrr og síðar, og um leið besti árangur íslensks skíðagöngumanns. Á HM í Planica í Slóveníu (HM er oft talið jafnvel sterkara mót en Ólympíuleikar) átti Snorri frábærar göngur og í raun betri en á Ólympíuleikunum 2022. Hann hafnaði í 28.sæti í skíðatvíkeppni og í 22. sæti í liðakeppni (með Degi Benediktssyni), og í 22.sæti í 15 km og 15. sæti í 50 km göngunni þar sem hann var á meðal fremstu manna megnið af göngunni. Þessi árangur hans, 15. sæti, er langbesti árangur Íslendings í skíðagöngu fyrr og síðar á stórmóti.

Þó svo að Snorri hafi keppt fyrir hönd Ullar frá því hann flutti til Íslands frá Noregi, þá býr hann á Ísafirði og æfði mest einn þar á hjólaskíðabretti í bílskúrnum. Snorri hefur nú ákveðið að ganga til liðs við Skíðafélag Ísfirðinga, og þökkum við honum kærlega fyrir samfylgdina og samstarfið í gegnum árin, og óskum honum alls hins besta. Snorri er magnaður einstaklingur og einn allri besti íþróttamaður sem Ísland hefur átt, og hefur lyft íþróttinni á næsta stig með árangri sínum, viðmóti og ekki síst að hafa verið frábær fyrirmynd fyrir unga skíðamenn, sem sjá hversu langt er hægt að ná með aga, dugnaði og þrautsegju, þó svo að aðstæðurnar séu ekki sem bestar. Takk Snorri!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur