Ullungar í Vasa

Nokkur hópur Ullunga fór til Svíþjóðar til að taka þátt í þeirri miklu skíðagönguveislu sem tengist Vasagöngunni. Reynt var að fylgjast með árangri þeirra hér á vefnum. Nú er hópurinn kominn heim eftir frækilega för og við höfum fengið betri myndir til að skreyta færsluna. Athugið að það fást stærri myndir með því að smella á þær!

6. mars 2011

Það voru 22 Íslendingar sem hófu keppni í Vasagöngunni í morgun, þar af þrír félagsmenn í Ulli sem stóðu sig með sóma. Baldur H. Ingvarsson lauk göngunni á 6:26:28, Darri Mikaelsson gekk á 7:33:36 og Þóroddur formaður vor á 9:09:02. Við Ullungar getum því verið stoltir af frammistöðu okkar fólks í þessari miklu íþróttahátíð og óskum þeim öllum til hamingju.

Hér má sjá árangur íslenska hópsins!

4. mars 2011

Vulkanen Island
Hér er boðgöngusveitin "Vulkanen Island", rásnúmer 202, áður en lagt var af stað í gönguna. Frá vinstri: Gústaf, Heiða, Ingvar, Darri og Þóroddur.
Í dag er boðganga á dagskrá, StafettVasan, og þar er eitt íslenskt lið skráð til leiks, „Vulkanen Island“. Gangan fer þannig fram að fimm manna lið skiptir með sér kílómetrunum 90 milli Sälen og Mora. „Vulkanen Island“ (rásnúmer 202) er fjölskyldusveit, skipuð Ullungum að fjórum fimmtu. Þetta eru þau Darri Mikaelsson, Þóroddur formaður Þóroddsson, Ingvar Þóroddsson, Heiða Darradóttir og Gústaf Darrason. Þau luku þessu með glæsibrag á tímanum 06:46:15 og er þeim hér með óskað til hamingju!
Hér til hliðar er mynd af hinni vösku sveit. Myndgæðin eru e.t.v. ekki upp á það besta enda er myndin send sem myndskilaboð úr síma. Væntanlega fáum við að sjá fleiri og enn betri myndir síðar.

Hér má sjá árangurinn!

1. mars 2011

Í dag var „HalvVasan“ á dagskrá og þar áttu Ullungar góða fulltrúa sem ástæða er til að óska til hamingju með árangurinn. Ólafur Helgi Valsson gekk á 02:44:29, Haraldur Hilmarsson á 02:54:13 og Þórhallur Ásmundsson á 03:00:29.

Árangur þeirra og annarra Íslendinga, sem gengu HalvVasan, má sjá hér.

28. febrúar 2011

Tveir Ullungar gengu „opið spor“ í dag og báðir lögðu að baki sína 90 km. Darri Mikaelsson lauk göngunni á 07:06:59 og Gísli Óskarsson lauk sinni göngu á 12:04:59. Báðir mega vera stoltir af árangrinum og er þeim hér með óskað til hamingju!

Árangur þeirra og annarra Íslendinga sem gengu opið spor í gær eða í dag má sjá hér.

Gústaf Darrason
Gústaf stóð sig frábærlega vel, bæði í UngdomsVasan en ekki síður í StafettVasan þar sem hann gekk 19 km lokasprett á innan við hálfum öðrum klukkutíma!

27. febrúar 2011

Fyrstur til að reyna sig í brautunum var Gústaf Darrason sem keppti í Ungdomsvasan, í flokki stráka 11-12 ára sem ganga 5 km. Hann varð í 61. sæti af 128 sem luku keppni í þessum flokki, gekk á 21:54 mín. Við óskum Gústaf til hamingju með glæsilegan árangur!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur