Ullungar í Fossavatnsgöngu

Fossavatnsgangan, start í 20 km göngu
Startið í 20 km göngu. Ef myndin er stækkuð með því að smella á hana má hér greina Ullungana Gerði Steinþórsdóttur (nr. 42, lengst til hægri, með rauða húfu), Ragnhildi Jónsdóttur (74), Árna Sigurðsson (41), Ingvar Einarsson (75), Magnús Björnsson (í svartri úlpu sem hylur rásnr. 47), Guðrúnu Pálsdóttur (18) og Þórhildi S. Sigurðardóttur (5).

Fossavatnsgangan á Ísafirði fór fram laugardaginn 28. apríl. Um tíma leit út fyrir að gangan yrði illa fyrir barðinu á veðri eða öllu heldur veðurspám eins og sumar aðrar göngur í vetur en með þrautseigju þeirra sem að göngunni stóðu tókst að ljúka henni með glæsibrag. Það var hárrétt ákvörðun hjá skipuleggjendum að fresta göngunni um þrjár klukkustundir því þótt frestunin kunni að hafa gert erfiðara fyrir með kaffihlaðborð, verðlaunaafhendingu og frágang úrslita fór gangan sjálf fram við bestu aðstæður sem í boði voru þennan daginn og um tíma yljaði sólin þeim sem biðu eftir skíðagörpunum við gönguhúsið á Seljalandsdal.

Fyrstur í mark í 50 km göngunni kom Markus Jönsson frá Svíþjóð. Aðeins 53 sekúndum síðar kom fyrsta konan í mark, en sú er fyrrverandi heimsmeistari í skíðagöngu, Aino-Kaisa Saarinen frá Finnland. Fyrstur íslenskra keppenda varð Kristbjörn R. Sigurjónsson SFÍ en Stella Hjaltadóttir SFÍ varð fyrst íslenskra kvenna. Það er athyglisvert að Kristbjörn (Bobbi sjálfur, aðaldriffjöður Fossavatnsgöngunnar) keppir í flokki 50-65 ára og sá sem kom í mark annar af 73 keppendum í 20 km göngu, Kristján Rafn Guðmundsson SFÍ, keppir í flokki 66 ára og eldri. Þetta er sýnir svo ekki verður um villst að skíðagöngu geta menn stundað með góðum árangri áratugum saman og það er full ástæða til að hvetja afreksíþróttamenn í öðrum greinum til að snúa sér að skíðagöngu þegar árin færast yfir.

Ullungar áttu myndarlegan hóp í göngunni. Af þeim 215 sem luku göngunni voru líklega um 24 frá Ulli. Talan er ekki alveg nákvæm, ekki er víst að allir félagsmenn hafi skráð sig í nafni félagsins. Vitað er um einn erlendan gest félagsmanns sem er skráður fyrir Ull og einnig um félagsmann sem ekki gat verið þekktur fyrir annað en að skrá sig fyrir sitt upprunafélag í þessari göngu. En það er hvort tveggja hið besta mál og breytir ekki því að u.þ.b. níundi hver keppandi í þessari göngu, sem er óneitanlega með glæsilegustu íþróttaviðburðum sem fram fara á Íslandi, kom frá Ulli.

Nokkrir Ullungar komust á verðlaunapall. Skemmtilegast er að lesa úrslitin í 50 km göngu kvenna, 16-34 ára, en þar voru Ullarstúlkurnar Hrefna Katrín Guðmundsdóttir og Málfríður Guðmundsdóttir þær einu sem öttu kappi við finnska heimsmeistarann. Í 50 km göngu karla 35-49 ára varð Ullargesturinn Peder Holst í 3. sæti og í 50 km göngu karla 50-65 ára varð Þórhallur Ásmundsson í 3. sæti. Í 20 km göngu kvenna 66 ára og eldri hlaut Gerður Steinþórsdóttir gullverðlaunin.

Myndir frá göngunni eru væntanlegar í myndasafnið áður en langt líður.

Heildarúrslit í Fossavatnsgöngunni 2012 má lesa hér.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur