Nú er lokið fjórum af þeim fimm göngum Íslandsgöngunnar sem gengnar verða í vetur en Hermannsgangan, sem átti að vera á Akureyri, mun hafa verið felld niður. Á vefsíðu Íslandsgöngunnar er litlar upplýsingar að finna og því hefur hér verið tekin saman stigatafla sem vonandi er í samræmi við reglur Íslandsgöngunnar. Engin ábyrgð er þó tekin á því að hér sé farið rétt með allt.
Samkvæmt þessari töflu hefur aðeins einn maður tekið þátt í öllum göngum Íslandsgöngunnar í vetur en það er Strandamaðurinn spræki, Birkir Þór Stefánsson. Svo er að sjá að hann eigi sigurinn vísan í flokki karla 35-49 ára, jafnvel þótt hann sleppi Fossavatnsgöngunni sem hann mun varla gera. Aðeins tveir aðrir hafa lokið þremur göngum en það eru þeir Akureyringurinn Helgi Heiðar Jóhannesson (16-34 ára) og Húsvíkingurinn Kári Páll Jónasson (35-49 ára). Í öðrum flokkum en flokki karla 35-49 ára er keppnin þó spennandi og ýmsir geta krækt í gullverðlaun með góðri frammistöðu í Fossavatnsgöngunni. Þó er ljóst að engin kona í flokki 35-49 ára mun ljúka þremur göngum í ár.
Stöðuna má sjá hér: Staðan_2012