Nú um helgina fer fram heimsbikarmót í skíðagöngu í La Clusaz í Frakklandi. Það þykir kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir það að Ullur og Ísland eiga þar keppanda. Á morgun mun Snorri Einarsson, sem gekk til liðs við Ull fyrir tímabilið, keppa í 15 km göngu með frjálsri aðferð. Keppnin hefst kl. 12:30 með hópstarti. Ullungar og annað skíðafólk eru hvatt til að fylgjast með Snorra þar sem gangan er sýnd, t.d. á Norska Ríkissjónvarpinu (NRK) eða Sænska Ríkissjónvarpinu (SVT).
Það sem af er tímabili hefur Snorri náð góðum árangri, meðal annars 2. sæti í sterku FIS-móti í Finnlandi og 13. sæti í gríðarsterku FIS-móti í Beitostølen í Noregi. Þess ber að geta að mótið í Beitostølen er opnunarmót norska tímabilsins og af mörgum talið sterkasta mót sem haldið er fyrir utan heimsbikar, heimsmeistaramót og ólympíuleika. Það er því ljóst að Snorri er í hörku formi og til alls líklegur.
Startlista fyrir morgundaginn má nálgast hér og lifandi tímatöku hér (velja þarf gönguna í La Clusaz).
Skíðagöngufélagið Ullur óska Snorra góðs gengis á morgun.