Snjóalög í Bláfjöllum í dag

Sjaldan hef ég verið jafn glaður að ganga um á harðfenni og ég var seinnipartinn í dag þegar ég fór á rifluðum brautarskíðum upp að enda á ljósalínu. Það er með ólíkindum hvað bætt hefur mikið á síðan á sunnudaginn og megnið af þessum snjó myndar þetta fína hjarn og síðan eru allar lægðir að fyllast af renningssnjó. Sporið sem lagt var á sléttunni í morgun var eðlilega að fyllast á köflum en það er fínasta færi fyrir frjálsa aðferð meðfram því. Þeir sem vilja fara á ferðaskíðum geta farið nánast út um alla heiði, auðvitað er grjót víða uppúr en ekki til vandræða, það væri meira að segja hægt að þræða á troðara með spor upp að ljósalínuenda og þaðan er leiðin trúlega greið inn með hlíðinni inn í Kerlingadal og jafnvel upp á heiðartopp, en ekkert liggur á því. Stefnum á að skálinn verði opinn frá 10-16 á morgun, börn og unglingar fá kakó eftir æfingu. Snjóalög lofa því góðu.
Þóroddur F.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur