Skin og skúrir í Íslandsgöngunni!

Það hefur gengið á ýmsu hjá þeim sem hugðust halda Íslandsgöngur. Fyrsta gangan, Hermannsgangan á Akureyri, átti að vera 11. febrúar en henni þurfti að fresta vegna slæms veðurútlits. Væntanlega verður tilkynnt fljótlega hvenær gerð verður önnur tilraun.

Ólafsfirðingar voru hins vegar í náðinni hjá æðri máttarvöldum. Fjarðargangan fór fram 25. febrúar eins og áætlað var og 60 keppendur luku henni. Sævar Birgisson og Magnea Guðbjörnsdóttir, bæði í SÓ, voru fljótust karla og kvenna í 20 km göngu. Ullur átti þrjá keppendur: Birgitta Birgisdóttir varð 12. af 20 keppendum í 5 km göngu og Birgir Gunnarsson og Gunnlaugur Jónasson urðu í 3. og 10. sæti af 12 keppendum í flokki 35-49 ára í 20 km göngu. Heildarúrslit göngunnar má finna hér.

Skíðagöngumóti aflýst vegna veðurs!

Reynsla Ullunga varð hins vegar sorgarsaga. Bláfjallagangan átti að vera 3. mars og það var ljóst með löngum fyrirvara að þá gæti brugðið til beggja vona með veður því að djúp og öflug lægð átti að ryðjast yfir landið um svipað leyti. Veðurspár voru ótrúlega villandi og tóku vinkilbeygjur í hvert skipti sem nýjar tölvuspár bárust. Á fimmtudag leit þó út fyrir það mætti gera ráð fyrir að það lægði og stytti upp í kjölfar roks og rigningar sem átti að ganga yfir aðfaranótt laugardags og það munaði hársbreidd að þá yrði því slegið föstu að gangan skyldi haldin samkvæmt áætlun. Þó var ákveðið að bíða föstudagsmorguns með endanlega ákvörðun en þá brá svo við að allar tiltækar tölvuspár voru sammála um að hléið eftir að skilin færu yfir yrði svo stutt að það nægði varla til að leggja brautina, hvað þá meira. Auk þess var ljóst að fæstir þeir, sem hygðust koma utan af landi, kæmust á staðinn nema með því að leggja sig í lífshættu á flughálum heiðum í stólparoki. Og þar sem spá sunnudagsins var ekkert betri var ekki um annað að ræða en afskrifa þessa helgi. Allir vita svo hvernig fór en því til staðfestingar er myndin hérna til hliðar (smellið á hana til að sjá stærri mynd).

Það er ekki enn ljóst hvenær býðst annað tækifæri til að halda Bláfjallagönguna. Kannski hún verði bara hvítasunnumót, stundum hefur verið nægur snjór í Bláfjöllum um það leyti!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur