Nýjustu fréttir úr Bláfjöllum á sunnudagsmorgni

Þóroddur formaður hringdi úr Bláfjöllum til að upplýsa um aðstæður. Þar er nú hæglætisveður og vægt frost en þokuslæðingur og dálítll snjór ýrist úr þokunni. Snjórinn er þéttur en ekki harður og efst er þunnt lag af nýjum snjó. Ekki var að finna nein merki um bleytu í þeim brautum sem troðnar höfðu verið í grennd við skálann. Aðstæður til skíðagöngu virðast því vera alveg frábærar að öðru leyti en því að ekki verða lögð nein spor í dag. Ástæðan er að þeir Bláfjallamenn telja snjóinn of blautan til að beita troðara á hann og eins mun sá troðari, sem sporinn er tengdur við, ekki vera tiltækur í dag vegna viðhaldsvinnu.

Það er því engin ástæða til annars en að drífa sig á skíði. Þeir, sem skauta, virðast fá draumaskilyrði í þeim brautum sem troðnar voru í fyrradag og fyrir aðra er vandræðalaust að ganga þótt ekki séu spor, bæði innan og utan gömlu brautanna. Þetta virðist því vera einn hinna fjölmörgu daga sem aðstæður til skíðagöngu eru góðar þótt ekki sé hægt að athafna sig með stórvirk tæki í brekkunum.

Viðbót kl. 10:50:  Nú er þokunni að létta. Þóroddur búinn að fara inn að gili og telur ekkert því til fyrirstöðu að hafa góða æfingu. Þá eru menn farnir á ferðaskíðum upp á heiði.

Viðbót kl. 14:30:  Það seig heldur á ógæfuhliðina eftir hádegið með vaxandi vindi og úrkomu. Slyggni varð afleitt og verst var að sjá alls engar mishæðir á jörðu niðri, þar var allt jafnhvítt! Einfalt spor, gert með vélsleða, hefði breytt miklu.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur

Gróðursetning í Bláfjöllum