Það var einstakur dagur í Bláfjöllum í gær. Um eða ufir 100 manns gengu hinar ýmsu vegalengdir sem í boði voru í Bláfjallagöngunni og bikarmóti SKÍ og þeir, sem þar voru, eiga varla orð til að lýsa ánægju sinni enda voru aðstæður eins og þær gerast bestar, glaðasólskin og hægur vindur en nokkurt frost. Hér er eitt sýnishorn af glæsilegum myndum Árna Tryggvasonar á fésbókarsíðu Ullar og segir hún meira en mörg orð: Keppendur bruna af stað!
Það gekk hins vegar ekki jafnvel í dag þegar ljúka átti bikarmótinu á göngu með frjálsri aðferð. Í strekkingsvindi og talsverðu frosti þótti ekki forsvaranlegt að senda keppendur af stað þannig að móti var frestað.
Það verður því miður nokkur bið á því að hægt verði að birta endanleg úrslit Bláfjallagöngunnar og bikarmótsins. Mótshald og tímataka var mjög flókin, í raun var keppt í tveimur mótum samtímis með ólíkri aldursflokkaskiptingu og keppti fólk ýmist í öðru hvoru mótinu eða báðum samtímis. Af óviðráðanlegum ástæðum verður úrlestur úr tímatökukerfinu því miður að bíða nokkra daga en vonandi verður hægt að birta úrslitin um næstu helgi. Til bráðabirgða verður reynt að segja frá hverjir urðu fremstir í hverjum flokki og ættu þær upplýsingar að geta birst í kvöld eða í fyrramálið.