Hvenær á að troða göngubraut?

„Alltaf þegar það er hægt“ er hið einfalda svar okkar sem viljum ganga sem allra mest á skíðum. En er víst að það sé alltaf rétt þegar til lengri tíma er litið? Skoðum málið aðeins út frá þeirri stöðu sem nú er uppi.

Um síðustu helgi var kominn ágætur skíðasnjór í Bláfjöll, reyndar ekki mjög mikill en þó nóg til að troða göngubraut þar sem sæmilega slétt var undir. Síðan hafa verið hlýindi lengst af, þó ekki mikil rigning, en það má þó búast við að snjórinn hafi sigið og eitthvað tekið upp. Á morgun, laugardag, lítur út fyrir ágætisveður og tveggja til þriggja stiga hita en á sunnudag á að frysta og vísbendingar eru um að það frost standi fram eftir vikunni. Engin snjókoma að ráði er sjánleg í spám. Og hvenær á þá að troða brautir helgarinnar?

Rýnum aðeins ofan í snjóinn. Segjum að málið sé svo einfalt að snjórinn bráðni ef lofthiti er yfir frostmarki. Hve ört hann tekur upp fer reyndar eftir ýmsu en eitt af því er stærð þess yfirborðs sem er í snertingu við loftið. Yfirborðið er minnst ef það er slétt en ef það er brotið upp, mulið í köggla og markað beltaförum margfaldast yfirborðið og bráðnun verður miklu meiri. Ef snjódýpt væri núna hálfur metri eða meiri um allar heiðar er enginn vafi að það myndi borga sig að troða braut meðan snjórinn er mjúkur, fórna þá svo sem 10 efstu sentimetrunum í bráðnun en þjappa hina 40 í lag sem myndi frjósa á sunnudaginn og mynda sterkt og endingargott botnlag sem entist vel í umhleypingum vetrarins. Ef snjódýptin er hins vegar í minnsta lagi er hætt við að aðeins þeir, sem ganga í kjölfar troðarans, fengju góða braut en þegar bráðnunin hefði tekið sinn toll stórykjust líkur á að grjót færi að stinga sér upp úr brautinni.

Og hvað á þá að gera? Héðan frá tölvuskjánum, án þess að hafa séð snjóinn með eigin augum í heila viku, gæti virst skynsamlegt að troða í fyrramálið lítinn hring á leirunum og þá helst að halda sig við þær slóðir þar sem snjórinn er mestur og sæmilega slétt undir. Þeir, sem vilja æfa sig í braut, fengju þá svoltla úrlausn. Fyrir aðra held ég að verði gott færi til að ganga utan brauta (klístur eða rifflur), snjórinn væntanlega siginn og þéttur en ekki hætta á ís og skara meðan ekki frystir. Á sunnudagsmorgun verður hins vegar komið frost og bráðnun hætt. Þá ætti að troða eins langa braut og snjóalög framast leyfa, helst upp á heiði og einhvern hring þar. Þá verður trúlega komið ís- og skaralag ofan á snjóinn og því erfiðara að ganga utan brauta og miðað við veðurspána  varir það ástand langt fram eftir vikunni.

Ég ítreka að þetta er bara hugmynd sem varð til framan við tölvuskjáinn, eins víst að þetta horfi öðruvísi við þeim sem lifa og hrærast í snjónum og þekkja hann og tækin sem þeir nota til að hagræða honum. Þeir Bláfjallamenn hafa reynslu af því að það borgi sig ekki að hreyfa við snjónum í hlýindum, það flýti bara fyrir bráðnun. En ég held að við getum treyst því að þeir reyni alltaf að gera það besta í hverri stöðu og við ættum því að sýna því skilning ef þeir troða ekki alltaf eins mikið og við helst vildum. En vonandi fáum við þokkalega skíðhelgi og snjó og brautir sem endast fram eftir vikunni.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur