Hundaæði í Bláfjöllum

Á miðvikudagskvöldið í síðustu viku var ég með nokkra krakka með mér á gönguskíðum á Leirunni við skálann okkar. Þá kom fólk með marga sleðahunda sem keyrðu á mikilli ferð fram og aftur um Leiruna , þvert yfir sporin sem var búið að troða og ofan í þeim. Hundarnir voru mjög hávaðasamir og ógnandi og mér sem leikmanni virtist sem stjórnendur sleðans réðu ekki vel við þá.

Í gærmorgun fór ég aftur og var fyrsti maður á svæðið. Þá þurfti ég að byrja á því að þrífa upp hundaskít á pallinum og tröppunum að skálanum og eins var skítur á göngusvæðinu. Ég veit samt ekkert hvort þetta var eftir sleðahundana eða einhverja aðra hunda. Eftir hádegið kom aftur fólk með sleða og hunda sem geystust um svæðið og meira og minna þar sem fimm börn á mínum vegum voru að ganga. Svo komu mun fleiri hundar sem ýmist voru lausir eða drógu eigandann. Sérstaklega voru sleðahundarnir mjög ógnandi og sáum við amk. einu sinni þar sem þeim og öðrum hópi hunda nær laust saman og varla að eigendurnir réðu við að stoppa þá, rétt hjá börnunum sem urðu mjög hrædd. Þetta varð til þess að við hættum fyrr en við höfðum áætlað og börnin flýttu sér einsog þau gátu inn í bíl.

Mér finnst þessar uppákomur fáránlegar og skil ekki að þeir sem eru með hunda þurfi endilega að vera á þessu litla svæði sem Leiran er og er jafnframt eina svæðið þar sem er troðin braut. Svo sá ég marga fleiri hunda að hlaupa lausa uppí brekkunum við  lyfturnar, sem voru lokaðar í gær. Mjög margir hundaeigendur þrífa ekki upp skítinn eftir þá og  geðslegt eða hitt þó heldur að fá þetta í snjóinn þar sem börn og fullorðnir eru að leik og börnin jafnvel að borða snjó einsog barna er siður.

Ég hef ekki kynnt mér hvort hundar megi strangt til tekið vera þarna en finnst að við Ullungar ættum að ræða þetta og hvet fólk til að setja inn athugasemdir. Mér finnst alveg nóg að þurfa að verja þetta litla svæði okkar fyrir jeppum og snjósleðum sem gjarnan gera sér það að leik að eyðileggja troðin spor.

Kveðja Eiríkur

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur