Hópferð í Strandagönguna?

Smellið á myndina til að stækka hana!
Smellið á myndina til að stækka hana!

Strandagangan fer fram í Selárdal við Steingrímsfjörð á laugardaginn, 16. mars. Ullur hefur hug á að senda myndarlegan hóp í Strandagönguna, bæði börn og fullorðna. Strandagangan hefur á undanförnum árum verið að festa sig í sessi sem sú ganga Íslandsgöngunnar þar sem flestir ná sér í Íslandsgöngustig og ekki er annað að sjá en að sú þróun haldi áfram. Þar kemur margt til. Ferðatími er skaplegur, bæði frá höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum og Mið-Norðurlandi. Þá eru snjóalög yfirleitt trygg og að þessu sinni er veðurspáin einnig mjög góð. Brautir í Strandagöngunni eru yfirleitt vel viðráðanlegar fyrir alla. Þá má minna á að þetta er síðasta tækifærið í vetur til að ná sér í Íslandsgöngustig án þess að þurfa að ganga 50 eða 60 km. Og ekki spillir að Strandamenn eru höfðingjar heim að sækja og má þar t.d. nefna Strandakökuna, kaffihlaðborðið eftir gönguna sem er öllum ógleymanlegt sem því hafa kynnst. Þá má minna Ullunga á að Strandamenn hafa sótt Bláfjallagönguna öðrum betur og það er því full ástæða til að gjalda líku líkt.

Nánari upplýsingar um gönguna fást með því að smella á myndina hér fyrir ofan en einnig má benda á nýjan og glæsilegan vef Strandagöngunnar, http://strandagangan.123.is/, þar sem sjá má allar nýjustu fréttir af undirbúningi göngunnar og hvernig óskað er eftir að fólk skrái sig í hana.

Ullur hefur hug á að auðvelda félagsmönnum, og öðrum skíðagöngumönnum á höfuðborgarsvæðinu, að komast í Strandagönguna með því að efna til hópferðar. Stefnt er að því að leigja hópferðabíl á vildarkjörum hjá Bílaleigu Akureyrar. Ef vel tekst að fylla bílinn þyrfti kostnaður á hvern mann ekki að vera miklu meiri en 5.000 kr. Miðað er við að leggja af stað snemma á laugardagsmorgni og koma til baka sama dag að göngu lokinni. Hugsanlega mætti þó gista eina nótt ef áhugi er á því en það hefur ekki enn verið kannað hvort það er í boði og hvað það myndi kosta.

Til að kanna áhuga Ullunga og annarra á að taka þátt í svona ferðalagi hefur verið útbúið dálítið spurningaeyðublað. Þeir sem gætu hugsað sér að vera með eru beðnir að láta vita af sér með því að fylla út eyðublaðið en það fæst hér:

Ég hef áhuga á hópferð í Strandagönguna

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur