Haust-fréttabréf Ullar

Kæru Ullungar!

Núna styttist í veturinn og við viljum aðeins fara yfir stöðu mála með ykkur.

Bláfjöll sporlagning
Því miður hefur Skíðasvæðið ekki haft fjármagn til að vinna frekar að brautarmálum sbr. uppsetningu snjógirðinga eða bættri lýsingu. Stefnt er að því að fara í átak í brautarmerkingum sem verða þá tilbúnar fyrir skíðatímabilið núna í vetur.

Bláfjöll aðgangshlið
Aðgangshlið verður sett upp fyrir veturinn við skíðagöngusvæðið

Bláfjöll salernismál
Stjórn Skíðasvæðanna samþykkti að ráðast í byggingu salernishúss sem myndi þjóna skíðagönguiðkendum og nýrri Gosalyftu. Umrætt hús er nú í útboðsferli og standa vonir enn til að það geti risið fyrir skíðatímabilið. Þetta væri gjörbæting á salernisaðstöðu okkar.

Bláfjöll skálamál
Síðastliðinn vetur ákvað stjórn Ullar að hefja undirbúning á byggingu nýs skála undir starfsemina, en ljóst er að núverandi aðstaða er löngu sprungin. Nýr skáli yrði um 80fm að gólffleti og myndi stórbæta almenna nestisaðstöðu, aðstöðu fyrir barna- og unglingastarf, ásamt námskeiða- og keppnishaldi. Þar sem núverandi byggingarreitur var takmarkaður af snjóflóðavarnalínu sem nú hefur verið breytt, þarf að sækja um nýja staðsetningu byggingarreits. Framkvæmdir við nýjan skála munu því ekki hefjast fyrr en næsta sumar.

Námskeiðahald
Fyrstu námskeið vetrarins hefjast í síðasta lagi í janúar. Við sendum út nánari upplýsingar í nóvember.

Starfsmaður Ullar
Elsa Gunnarsdóttir verður áfram með okkur í vetur og byrjar um miðjan nóvember.

Heiðmörk sporlagning
Sem fyrr mun Ullur í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg sjá um sporlagningu í Heiðmörk (sem reyndar var engin í fyrra vegna snjóleysis). Síðastliðið haust var kláruð tengibraut frá Elliðavatnsbæ/Helluvatni að göngusporinu okkar, en um er að ræða sirka 2,3km leið meðfram vatnsverndarsvæðinu. Með þessari framkvæmd sem kostuð var af OR er tryggt aðgengi að göngubrautinni þó að veginum sé lokað vegna vatnsverndarsjónarmiða og á sama tíma mun bílastæðum fjölgað til muna. Þessi braut er skemmtileg viðbót við núverandi 4 og 8km hringi og bíður líka upp á að hægt sé að útbúa styttri og auðveldari hringi nær Elliðavatnsbænum. Hafinn er undirbúningur á annarri tengibraut að Elliðavatni (Þingnesi) sem myndi þá búa til 5, 9 og 13km hring frá Elliðavatnsbænum. Í fyrra var fjárfest í staðsetningarbúnaði (www.skisporet.no) fyrir sporann okkar sem hægt er að tengja við heimasíðu og Facebook síður Ullar og Heiðmerkur. Með þessu ætti upplýsingagjöf um stöðu brautarlagningar að batna til muna. Stefnum á hreinsunardag í Heiðmörk laugardaginn 2. okótber n.k., auglýsum nánar hér á næstu dögum.

Barna- og unglingastarf Ullar
Gaman að segja frá því að Steven Gromatka hefur verið ráðinn yfirþjálfari og verður Guðný Katrín Kristinsdóttir aðstoðarþjálfari með honum. Veturinn 2021-2022 verða reglulegar æfingar fyrir börn og unglinga. Við viljum endilega fá fleiri krakka í hópinn og er öllum velkomið að koma og prófa. Endilega hafið samband við okkur ef þið hafið áhuga í gegnum netfangið krakkaullur@gmail.com. Einnig má hringja í 848-8691.
Krökkunum er skipt í þrjá aldurshópa:

  • 6-8 ára (2015-2013): Æfingar hefjast eftir áramót, einu sinni í viku um helgar. Æfingatímabilið er frá janúar til lok apríl.
  • 9-11 ára (2012-2010): Æfingar tvisvar í viku fyrir áramót og 3 í viku eftir áramót. Miðvikudagar kl. 17.30 og sunnudagar kl. 9.
  • 12 ára og eldri (2009 og eldri): Æfingar 2-3 í viku með þjálfara og æfingaplan fyrir eigin æfingar þess á milli.

Æfingatímabilið er 10 mánuðir. Miðvikudagar kl. 17.30, föstudagar kl. 17.30 og sunnudagar kl. 9.
Á meðan enginn er snjórinn eru æfingar á höfuðborgarsvæðinu eða í Heiðmörk en þegar snjórinn kemur færum við okkur yfir í Bláfjöll eða Heiðmörk. Æfingaáætlun fyrir hverja viku auk staðsetningar á æfingum er birt í byrjun vikunnar. Þar sem staðsetning æfinga er breytileg þá er tilkynnt um staðsetningu fyrir hverja æfingu á Facebook síðu hópsins.

Mótahald
Það stendur til að halda hjólaskíðamót núna í haust, nánari tímasetning verður auglýst síðar. Fyrirhugað er að halda Bikarmót/FIS mót í Bláfjöllum og svo er Bláfjallagangan á dagskrá laugardaginn 19. mars 2022. Stefnum einnig að því að vera með að minnsta kosti eitt innanfélagsmót. Vonum að við getum haldið áætlun hvað varðar mótin í vetur.

Félagsskírteini og 20% afsláttur af árskortum
Félagsgjaldið er 4.200 krónur fyrir veturinn 2021 – 2022 og birtast skírteinin rafrænt í Aur appinu. Ef þú ert félagi í Ulli þá nýtur þú afsláttarkjara hjá mörgum af okkar velunnurum og aðstoðar við uppbyggingu skíðagöngunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hér er hægt að gerast félagi í Ulli.
Árskort í brautina eru á 20% afslætti út desember og hægt að ganga frá kaupum hér. Einnig er alltaf hægt að kaupa stakan dagsmiða á sama stað.

Við hlökkum til vetrarins með ykkur, sjáumst í sporinu!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur

Gróðursetning í Bláfjöllum