Fyrsti skíðaskóli í heimi

Buch_1777Sumarið 1777 kom skip af hafi og um borð var hreindýrahjörð sem sleppt var í nágrenni Hafnarfjarðar. Sá sem útvegaði dýrin og sendi þau til Íslands var kaupmaður í Hammerfest í Finnmörku, Peter Christian Buch, maður af dönskum ættum. Buch var maður rausnarlegur því auk þess að greiða allan kostnað við flutning dýranna til Íslands sendi hann 22 ára gamlan son sinn, Nicolay Arnt Peter Buch, með skipinu til að tryggja að vel væri að öllu staðið. En þegar dýrin voru komin á land og farin að dreifa sér um Reykjanesskagann ákvað Nikulás Buch að fara ekki með skipinu til baka heldur dveljast lengur á Íslandi.

Nikulás Buch leitaði til dönsku einokunarverslunarinnar í Reykjavík eftir atvinnu og það leiddi til þess að hann fékk stöðu undirassistents hjá versluninni á Húsavík. Hann átti heima á þeim slóðum lengst af eftir það, var um tíma umsvifamikill athafnamaður á Húsavík, síðar bóndi á Laxamýri í Aðaldal og loks á Bakka við Húsavík.

Nikulás Buch gekk að eiga íslenska konu, Karenu Torlacius, og eignuðust þau mörg börn. Þau hjón urðu þó ekki langlíf, Karen lést aðeins 34 ára er hún ól ellefta eða tólfta barnið á 15 árum og Nikulás lést sjö árum síðar, fimmtugur að aldri.

Nikulás Buch var með afbrigðum hæfileikaríkur maður. Hann var vel lesinn og bókneigður en einnig handlaginn og hafði numið beykisiðn. Hann var vel að sér um náttúruvísindi, einkum jarðefni, og var um skeið forstöðumaður brennisteinsvinnslu á Húsavík. Þá kunni hann allnokkuð fyrir sér í læknavísindum og nutu margir góðs af því. Og þá er loks komið að ástæðu þess að um hann er fjallað á vefsíðu skíðagöngufélags en hann var skíðamaður góður, „fæddur með skíði á fótunum“.

Þegar snjó tók að kyngja niður haustið 1777 dró Nikulás fram skíði sem hann þeyttist á um allar jarðir. Þingeyingar, sem fram að því höfðu þrammað á þrúgum um snævi þaktar heiðar, ráku upp stór augu. Fréttir af þessari framtakssemi bárust til Kaupmannahafnar og vöktu þar slíka athygli að Danakonungur sendi þau boð til stiftamtmanns að ef hann teldi skíðagöngu geta komið Íslendingum til góða skyldi hann hvetja undirassistent Buch til að kenna öðrum íþróttina. Og fyrir það skyldi hann verðlaunaður. Og þar með hóf fyrsti skíðaskóli heims göngu sína, árið 1777, og þetta er væntanlega eini skíðaskóli á Íslandi sem stofnaður hefur verið að boði konungs. Og þótt nemendur hafi aðeins verið þrír í fyrstu á Nikulás Buch heiðurinn að því að hafa innleitt skíðagönguíþróttina á Íslandi og hún breiddist út í Þingeyjarsýslu í lok 18. aldar.

Það var því einkar vel til fundið hjá Húsvíkingum að kenna sína Íslandsgöngu við frumkvöðulinn Nikulás Buch og vonandi heldur Buchgangan velli þótt menn virðist nú heldur kjósa að nota annað nafn.

Það sem hér hefur verið skrifað er að mestu tekið úr grein sem birtist í blaðinu Degi á Akureyri í janúar 1983. Greinin er um Buch og feril hans á Íslandi og er eftir Norðmanninn  Svein Eggen, Bjarni Sigtryggsson þýddi. Það var ágætur félagi okkar í Ulli, Kristjana Bergsdóttir, sem benti okkur á greinina og kunnum við henni bestu þakkir fyrir. Krækja í greinina á timarit.is er hér:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2668540

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur