Snjórinn er kominn í Bláfjöll, vonandi til að vera! Í dag var troðinn æfingahringur á Neðri-Sléttu, meginhringurinn var 1,3 km en það mátti lengja hann í 1,75 km með því að bæta við svolítilli slaufu inni í stóra hringnum. Og það er skemmst frá því að segja að færið var aldeilis frábært, mjög gott spor í silkimjúkum snjó. Og ekki er heldur hægt að kvarta yfir veðrinu þótt þokan hafi verið óþarflega þrálát á köflum.
Það voru þó nokkrir sem notuð tækifærið til að komast á skíði og m.a. fór fram fyrsta æfing vetrarins fyrir börn og unglinga. Hópurinn var að vísu ekki stór, aðeins tveir komu á þessa fyrstu æfingu. En mjór er mikils vísir og það er full ástæða til að hvetja alla krakka, sem vilja verða góðir í skíðagöngu til að koma á æfingar hjá flottum þjálfara, Gunnari Birgissyni, efnilegasta skíðagöngumanni á landinu.