Frábæru bikarmóti lokið á Akureyri

Dagana 13. – 15. janúar var haldið fyrsta bikarmót skíðatímabilsins á Akureyri.  Mótið var óvenju fjölmennt og líklega það fjölmennasta sem haldið hefur verið undnafarin ár. Heildarfjöldi þátttakenda var 51 keppandi frá öllu landinu. Skíðagöngufélagið Ullur mætti til leiks með flesta keppendur eða alls 14 keppendur, frá 13 ára aldri og upp úr.  Keppt var á föstudag í sprettgöngu með hefðbundinni aðferð, á laugardag var keppt með frjálsri aðferð og á sunnudag var keppt í hefðbundinni göngu með hópstarti. Aðstæður voru hinar bestu, nægur snjór góðar brautir en heldur kalt var alla dagana. Skíðafélag Akureyrar á hrós skilið fyrir frábæra framkvæmd á mótinu.

Árangurinn okkar fólks í Ulli var mjög góður og skilaði samtals 7 gullverðlaunum, 7 silfurverðlaunum  og 7 bronsverðlaunum í öllum greinum og aldursflokkum. Þar er helst að nefna að Hjalti Böðvarsson sigraði í öllum sínum greinum í 15-16 ára flokki drengja og mætir sterkur til leiks í þessum öfluga flokki. Hjalti hefur æft gríðarlega vel í sumar og í haust eins og allt liðið.. Í flokki fullorðinna vann Snorri Einarsson, allar sínar greinar með yfirburðum og Kristrún Guðnadóttir vann sína einu göngu nokkuð örugglega. Heildar úrslit frá mótinu má nálgast á timataka.net

Bikarmótin og þátttaka á þeim er mikilvægur partur af starfi Skíðagöngufélagsins Ullar. Mótin eru frábær tækifæri fyrir æfingakrakka til að ferðast saman og efla félagsandann.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur