Fossavatnsgöngunni lokið

Fossavatnsgangan fór fram í dag og hafa keppendur aldrei verið fleiri, 344 keppendur frá 15 löndum voru skráðir til leiks. Því miður entist ekki veðurblíðan sem verið hefur á Ísafirði, nema fram undir miðja vikuna og slæmar veðurspár, sem rættust, settu verulegt mark á gönguna. En það verður að hrósa skipuleggjendum fyrir frábærar lausnir á hverjum vanda. Í stað þess að hefja gönguna á Breiðadalsheiði, eins og venja er, fór gangan eingöngu fram á Seljalandsdal með rásmark og mark við gönguskálann. Vegalengdir styttust nokkuð frá því sem fyrirhugað var. Þannig urðu 7 km að 2,5 km, 20 km að 15 km og 50 km að 45 km en gengnir voru þrír 15 km hringir. Færið var erfitt en brautirnar voru snilldarlega lagðar og sporið betra en nokkur gat búisð við við þessar aðstæður. Á stöku stað skóf í sporið en vindur var mjög hvass og byljóttur, vindhviður náðu 27 m/s á Þverfjalli meðan á göngunni stóð og það fréttist af keppendum sem hreinlega fuku um koll í verstu hviðunum.

Ullungar geta verið stoltir af sínum hlut en Ullur átti marga keppendur í 10, 15 og 45 km göngu. Þeim verða gerð betri skil síðar og vonandi tekst að grafa upp einhverjar myndir frá göngunni. Þeir, sem luma á góðum myndum, eru beðnir að leyfa okkur að sjá einhverjar þeirra hér á vefnum. Heildarúrslit má sjá á vefnum www.timataka.net.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur