Fossavatnsgöngu lokið

Fossavatnsgangan fór fram á Ísafirði laugardaginn 30. apríl. Mótið var hið glæsilegasta að vanda og rúmlega 250 gengu 7, 10, 20 eða 50 km. Veður var gott, nánast blæjalogn en þokuslæðingur og svolítill suddi voru stundum heldur til óþurftar. Brautir voru afbragðsgóðar og skíðafæri gott þó að snjórinn væri vissulega orðinn nokkuð blautur þar sem brautin lá hvað lægst og nýr snjór við rásmarkið hafi gert ýmsum áburðarvalið erfitt.

Ullungar áttu myndarlegan hóp í göngunni. 21 var skráður í nafni félagsins og vitað er að hópurinn var stærri þar sem einhverjir, sem voru skráðir frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, eru félagar í Ulli. Nokkrir Ullungar komust á verðlaunapall. Glæsilegastur var árangurinn í 20 km göngu karla þar sem Birgir Gunnarsson og Ólafur Helgi Valsson urðu í 1. og 2. sæti í flokki 35-49 ára og Þórhallur Ásmundsson sigraði í flokki 50-65 ára. Konur stóðu sig einnig vel í 20 km göngu, Hrefna Katrín Guðmundsdóttir varð í 3. sæti í flokki 16-34 ára og Ragnhildur Jónsdóttir í 3. sæti í flokki 50-65 ára. Þá er helst að sjá að móthöldurum hafi orðið á þau mistök (líklega þau einu í allri framkvæmd mótsins!) að gleyma að veita verðlaun í flokki kvenna 66 ára og eldri en þar mun Gerður Steinþórsdóttir hafa orðið fyrst eftir glæsilega göngu. Í 50 km göngu fékk Málfríður Guðmundsdóttir 2. verðlaun í flokki kvenna 16-34 ára. Hún var líka eina konan í þeim aldursflokki sem lauk þremur göngum í Íslandsgöngunni og fékk vel verðskuldaða bikara fyrir það afrek. Í sveitakeppni sigraði sveitin Fljótamenn með yfirburðum í 20 km göngu en hún var eingöngu skipuð Ullungum, sjá mynd hér fyrir neðan. Þá átti Ullur einn fulltrúa af þremur, Hrein Hjartarson, í sveitinni Andrés önd sem varð í þriðja sæti í 10 km göngu.

Þá má ekki gleyma frábærum árangri Ullunganna Hólmfríðar Völu Svavarsdóttur og Daníels Jakobssonar þó að þau keppi nú fyrir Ísafjörð. Vala kom langfyrst í mark í 50 km göngu kvenna og Daníel kom annar í mark í 50 km göngu karla, sigurvegari í sínum aldursflokki.

Heildarúrslit í Fossavatnsgöngunni má sjá hér (7 km, 10 km og 20 km) og hér (50 km). Fleiri myndir eru væntanlegar í myndasafnið innan tíðar.

Hér er sigursveitin í 20 km göngu en hún var skipuð Ullungunum Birgi Gunnarssyni, Þórhalli Ásmundssyni (með bikarinn) og Ólafi Helga Valssyni.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur