Það eru sennilega allir hættir að hugsa um skíðagöngu nú í sumarhitanum en ef það hefur ekki enn komist í verk að ganga frá skíðunum fyrir sumarið er ekki seinna vænna að huga að því. Á vönduðum nútímaskíðum er sólinn nefnilega þannig að hann getur ofþornað og skemmst ef hann er lengi áburðarlaus og óvarinn. Það er því mikilvægt að metta rennslisfletina með áburði áður en skíðin eru sett í geymslu, það skilar sér í betra rennsli næsta vetur.
Byrjum a að hreinsa burt allt gamalt klístur af festufletinum og reynum að bursta burt alla klístubletti sem kunna að hafa laumað sér á rennslisfletina. Bræðum svo mjúkan rennslisáburð (t.d. gulan RODE eða Swix CH10) á rennslisfletina og látum hann storkna þar, sköfum ekkert af fyrr en í haust! Eftir þetta líður skíðunum betur í sumarblíðunni.