Það hefur lengi verið baráttumál Ullunga að leggja góðar gönguskíðabrautir á höfuðborgarsvæðinu þá allt of fáu daga á vetri þegar þar er nægur snjór. Félagið hefur lagt bæði heilabrot og vinnu í verkefnið, t.d. leitað eftir samstarfi við sveitarfélög og fleiri, smíðað brýr á skurði í Fossvogsdal og látið smíða dekkjavaltara til að þjappa snjó á skíðabrautum. En oft hefur góður ásetningur strandað á því að félagið hefur ekki aðgang að hentugu tæki til að draga valtara eða spora, t.d. vélsleða eða fjórhjóli á beltum. Vonandi rætist úr þessu í vetur, það kemur a.m.k. fram á nýlegu fréttabréfi til félagsmanna að unnið er að því að félagið eignist vélsleða sem sjálfsagt er raunhæfasta leiðin til að leysa þennan vanda. Það er þó alls ekki auðvelt fyrir fátækt og fámennt félag að eignast og reka slíkt tæki.
En það kostar ekkert að velta fyrir sér skemmtilegum möguleikum og láta sig dreyma um alls konar undratæki til að leggja brautir. Eitt slíkt má sjá á myndinni hér til hliðar og hvort sem þetta kallast sleði eða skriðdreki tekur kynningarmyndband um tækið, http://www.youtube.com/watch?v=tKJIbaEKa3o af allan vafa um að þetta hljóti að vera efst á óskalista allra sem vilja leggja göngubrautir í almenningsgörðum og á skógarstígum. Tækið er gríðaröflugt og rafknúið, þar af leiðandi mengunarfrítt sem hlýtur að teljast kostur á viðkvæmum vatnsverndarsvæðum. Notkunarmöguleikar virðast óendanlegir, það má m.a.s. fá úr því rafmagn fyrir handverkfæri ef menn lenda í smíðavinnu til fjalla! Það er kanadískur uppfinningamaður sem hefur smíðað þetta tæki og það er enn ekki komið í fjöldaframleiðslu, verð liggur því ekki fyrir en verður trúlega nokkuð hátt. Hér má lesa meira um þetta undratæki: http://www.gizmag.com/mtt-136-personal-electric-sled/30932/
Tækið á neðri myndinni er allt annars eðlis. Þetta er reiðhjól af þeirri gerð sem á heimsmálinu kallast „recumbent trike“. Þannig hjól njóta vaxandi vinsælda, ekki síst meðal þeirra sem geta ekki notað venjuleg tvíhjól vegna jafnvægisleysis eða annarrar fötlunar, en þau hafa ekki náð slíkri útbreiðslu á Íslandi að íslenskt nafn hafi fest sig í sessi. Þetta er ekki vélknúið tæki og því hlýtur að vera leyfilegt að nota það nánast hvar sem er. Það er engan veginn jafnöflugt og skriðdrekinn (fer þó kannski eftir krafti og úthaldi þess sem situr á því!) en gæti þó vel dugað til að fara með léttan spora, t.d. þann sem Árni Tryggvason smíðaði í fyrra, um tún og göngustíga höfuðborgarsvæðisins eða til að hressa upp á spor sem skafið hefur í á troðnum brautum.
Þessa útfærslu á hjólinu má rekja til þess að bresk ævintýrakona, Maria Leijerstam, lét sérsmíða fyrir sig hjól til að hjóla á Suðurpólinn um síðustu jól. Ferðin gekk svo vel að Maria komst í Heimsmetabók Guinness fyrir að verða fyrst allra til að hjóla á Suðurpólinn og auk þess var hún fljótust allra sem hafa farið á eigin kröftum eingöngu frá strönd Suðurskautslandsins á pólinn, ferðin tók aðeins rúmlega tíu og hálfan sólarhring. Hér má finna upplýsingar um pólferðina (t.d. undir flipanum „Media“): http://www.whiteicecycle.com
Nú er endurskoðuð útgáfa af þessu sérsmíðaða hjóli að koma á almennan markað og í síðustu viku spurðist út að einfaldasta gerð af þessu bresksmíðaða hjóli myndi kosta um 5000 dollara.