Enn um námskeiðin

Það var áður komið fram hér á vefnum að mikil aðsókn er að námskeiðunum sem Ullur stendur nú fyrir en þar getur allur almenningur fengið leiðsögn í skíðagöngu. Allir ættu að fá eitthvað við sitt hæfi, jafnt algjörir byrjendur sem og þeir sem lengra eru komnir en vilja bæta tæknina; en hverjum hóp er skipt í minni hópa eftir getu. Gert er ráð fyrir að ekki séu fleiri en átta hjá hverjum leiðbeinanda þannig að hægt sé að sinna öllum.

olis_logoFélagið vill leitast við að bjóða almenningi ókeypis skíðakennslu. Það tókst síðustu helgi með góðri liðveislu styrktaraðila og munar þar mest um myndarlegan styrk frá Olís. Vegna þess að þátttakendur urðu helmingi fleiri en gert var ráð fyrir í upphafi er þó enn verið að leita að fleirum sem vilja leggja málinu lið. Þess ber þó að geta að miðað er við að hver maður fái eitt námskeið ókeypis, þeir sem skrá sig á tvö þurfa að greiða fyrir það síðara (1.500 kr. á eigin skíðum, 2.500 kr. á lánsskíðum).

Það voru um 115 manns sem voru á námskeiðunum um síðustu helgi og verða varla miklu færri um þá næstu ef svo fer sem horfir. Fyrsta námskeiðið, laugardaginn 19. janúar kl. 11, er þegar fullbókað og margir hafa einnig skráð sig á það síðasta, sunnudaginn 20. janúar kl. 14. Þar styttist í að ekki verði hægt að bjóða fleirum að fá lánuð skíði en hægt er að taka við þó nokkrum sem hafa sín eigin skíði. Á hinum námskeiðunum tveimur, laugardaginn kl. 14 og sunnudaginn kl. 11, er enn nóg pláss.

Gera má ráð fyrir að kennsla á hverju námskeiði standi í klukkutíma. Það er mikilvægt að fólk komi tímanlega, þeir sem ætla að fá lánuð skíði þurfa að koma a.m.k. hálftíma áður en kennsla hefst svo tími sé til að finna hentug skíði, stafi og skó. Það má því búast við að fólk dveljist u.þ.b. tvo klukkutíma á svæðinu – og að sjálfsögðu lengur ef það nýtir tækifærið til að iðka nýlærðar listir á skíðunum eftir að formlegri kennslu lýkur.

Gera verður ráð fyrir að ferðin upp í Bláfjöll taki a.m.k. 30-40 mínútur úr efri byggðum borgarinnar. Ekið er fram hjá öllum skálum sem sjást frá veginum alla leið að stólalyftunni í Suðurgili, þaðan sést hvar skáli Ullar kúrir sunnan undir hól. Hér má átta sig á hvar skálinn er og sjá leiðina: Skáli Ullar

Notið tækifærið til að fá tilsögn í skíðagöngu, velkomin í Bláfjöll!

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur