Bláfjöll og yr.no

Veðurspár yr.no eru ákaflega vinsælar enda eru þær mjög aðgengilegar og notendum finnst þeir fá nákvæma spá fyrir hvaða stað sem er, setta fram á skýran, myndrænan hátt. En það er samt ekki öruggt að sækja spá fyrir Bláfjöll án þess að gæta sín vel. Í alheimsörnefnabankanum www.geonames.org, sem yr.no styðst við, kemur nafnið Bláfjöll fyrir á fjórum stöðum á Íslandi. Eitt tilvikið er sagt á Norðurlandi eystra og því auðvelt að varast það en hin þrjú eru sögð fjöll á Suðurlandi. Það er ekki alveg ljóst hvernig á að hitta á réttu fjöllin því hver veit hvort okkar Bláfjöll eru númer 2632767, 2632768 eða 3418149? Reyndar er síðasta númerið það rétta og e.t.v. má treysta því að það sé síðast í röðinni. En samt er öruggast að athuga hvort fjöllin lenda á réttum stað á korti sem birtist á yfirlitssíðunni (sést í vafra en ekki á appi) og hvort neðst á þeirri sömu síðu séu myndir úr myndavélum Vegagerðarinnar við vegamótin á Sandskeiði.

Hér fyrir neðan má sjá þrjár myndir með spám fyrir þessi þrenn sunnlensku Bláfjöll (spár fyrir sunnudaginn 2. febrúar 2014) og það er augljóst að það skiptir máli að velja þau réttu. Á kortum til hægri á myndunum má sjá nokkurn veginn hvar þessi fjöll eru. Það er svo spurning, sem oft heyrist, hvort eitthvað sé að marka þessar spár, kannski verður hægt að skoða það eitthvað síðar.

Deila

Facebook
Twitter

Nýlegar færslur